Nýtt sjúkraskráningarkerfi spari tíma

24.02.2016 - 06:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins, Læknavaktin og Landlæknisembættið undirrituðu á mánudag samning um kaup á hugbúnaðinum MedSys, sem sagður er draga úr þeim tíma sem læknar hafa hingað til þurft að verja í skráningu upplýsinga um sjúklinga sína. Samningurinn tryggir öllum læknum við störf á opinberum heilbrigðisstofnunum afnot af hugbúnaðinum.

Hugbúnaðurinn gerir einnig erlendum læknum sem hingað eru ráðnir til vinnu kleift að skrá upplýsingar um sjúklinga sína á sínu tungumáli. Hugbúnaðurinn þýðir síðan upplýsingarnar yfir á íslensku.

Hugbúnaðurinn er hugverk MS Investments, sem er í eigu Sveins Rúnars Sigurðssonar læknis. Hann segir að sjúkraskráning sé einn stærsti þátturinn í starfi flestra lækna og íþyngjandi. Talað sé um að almennt séu tíu prósent lækna að vinna að skráningu sem takmarki mannauð.  

Nýja skráningarkerfið snarminnki þann tíma sem taki að skrá, eða um 70 prósent. „Þetta sparar læknum við störf mikinn tíma og eykur afköst þeirra, sjúklingum til góðs,“ segir Sveinn. Þá auki það samkeppnishæfni landsins með þýðingarlausninni sem veiti möguleika á því að ráða erlenda lækna. 

Í tilkynningu kemur fram að áformað er að hugbúnaðurinn verði kynntur læknum um allt land í upphafi næsta árs. Læknavaktin byrjar hinsvegar að nota hugbúnaðinn í haust. 

Sveinn segir að samningurinn kveði á um að hugbúnaðurinn verði  opinber lausn í sjúkraskráningu hér á landi og fellt inn í Sögu sjúkraskráningakerfið, sem er í notkun, svipað og Meninga er fellt inn í heimabanka. 

Við sjúkraskráningu í MedSys fylgja kóðaðar upplýsingar, sem Sveinn segir að gefi möguleika á tölfræðivinnslu á sjúkragögnum á Íslandi síðar meir.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV