Nýr togari Bolvíkinga

27.01.2016 - 19:24
Nýr togari kom til heimahafnar í Bolungarvík í gærkvöld. Útgerðarfélagið Jakob Valgeir keypti skipið og áætlar framkvæmdastjórinn að framleiðsla fyrirtækisins eflist til muna.

Togarinn fær nafnið Sirrý ÍS. Hann er tæplega sjö hundruð tonn og rúmar um hundrað tonna afla. Skipið var smíðað á spáni árið 1998 en kom hingað frá Noregi. Togarinn kostaði 300 milljónir og mun sjá útgerðinni fyrir hráefni ásamt nokkrum smærri bátum. Jakob Valgeir Flosason er framkvæmdastjóri útgerðarinnar: „Við verðum með mun jafnari hráefni í vinnslunni sem auðveldar okkur alla stýringu. Á að vera sveiflujöfnun við smábátana, það er svo misjafnt hversu mikið þeir veiða.“

Fjölmargir íbúar Bolungarvíkur og nágrennis lögðu leið sína í Bolungarvíkurhöfn til að bera nýja togarann augum enda langt síðan svo stórt skip hefur átt þar heimahöfn.

Nikólína Þorvaldsdóttir er íbúi í Bolungarvík: „Rosalega gott að fá svona nýtt, bara æðislegt. Upplyfting fyrir okkur hér á staðnum.“

 Natalía, Edda og Marín eru ellefu ára og voru komnar til að skoða togarann. Natalíu fannst svefnherbergin flottust, Eddu og Marín fannst hann líka flottur en Marín var ekki viss um að hún vildi vinna á honum í framtíðinni.

Jakob Valgeir rak áður útgerðarfélagið JV ehf sem varð gjaldþrota í september 2012. Nú er hann hins vegar kominn á fulla siglingu að nýju, með láni frá Íslandsbanka. Útgerðin hefur einnig fjárfest í nýjum vinnsluvélum sem verða notaðar til að vinna afla togarans: „Við erum að auka afköstin mjög verulega. Úr fjögur fimm þúsund í sjö átta þúsund tonn.“