Nýr skógræktarstjóri vill stórauka skógrækt

20.01.2016 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: skogræktarráðstefna egilstö�  -  skogur.is
Ein stærsta skógræktarráðstefna sem haldin hefur verið fór fram á Egilsstöðum í dag til heiðurs Jóni Loftssyni fráfarandi skógræktarstjóra. Þröstur Eysteinsson eftirmaður hans segir að nauðsynlegt sé að snúa við þeirri þróun sem orðið hefur frá efnhagshruni, en um helmingi færri plöntur eru gróðursettar á ársgrundvelli síðan þá. Hann segir væntingar til skógræktar sem atvinnugreinar miklar en ný landsáætlun var meðal annars kynnt á ráðstefnunni sem fram fór í dag.

 Mörg sjónarmið koma saman að mati nýs skógræktarstjóra, Þrastar Eysteinssonar, þegar talað er um að efla skógrækt í landinu. Skógrækt skapi störf en hafi líka fleiri félagslega og menningarlega kosti í för með sér. Markmiðið sé ekki einungis að framleiða timbur eða verða sjálfbær um framleiðslu á iðnviði til brennslu í stóriðjuverum eins og á Grundartanga, þó það séu í sjálfu sér ekki ógöfug markmið. Skógar í grennd við þéttbýli bæti lífsgæði til útivistar, bæði veðurfræðilega og andlega. Eins séu loftslagsáhrif mikilvæg þegar horft er til framtíðar en skógar verndi jarðveg og bindi kolefni.  

Ný skógræktarstofnun í bígerð

Á ráðstefnunni í dag var horft til baka á feril Jóns Loftssonar fyrrum skógræktarstjóra en einnig farið yfir þau verkefni sem fram undan eru í skógrækt á næstu árum. Nú stendur yfir ferli sem ríkisvaldið hefur sett af stað þar sem sameining skógræktarstofnana er í bígerð. Mikilvægt er að mati Þrastar Eysteinssonar að það ferli takist vel og þar verði vandað til verka. Í gær fór Þröstur yfir þetta ferli með hagsmunaaðilum og fulltrúum skógræktarfélaga og landshlutasamtaka. Þar lagði hann áherslu á að þetta væri raunveruleg sameining í nýja stofnun, ekki innlimun eins í annað. Þess vegna væru breytingar fram undan.

Auk þess stóra verkefnis sem sameiningin yrði á komandi misserum sagði Þröstur mikilvægt að vinna að því að skógrækt yrði aukin á ný í landinu, bæði í bændaskógum og í þjóðskógunum. Einnig að áfram yrði unnið að trjákynbótum og rannsóknir efldar. Hann talaði um aukna sjálfgræðslu birkis í landinu og að ýta þyrfti undir hana, til að mynda með frekara samstarfi við Landgræðsluna og fleiri um aukna útbreiðslu birkis.

Samstarf og samráð mikilvægt

Þá boðaði Þröstur einnig aukið samráð um landnotkun á Íslandi við stofnanir, samtök og fleiri sem málið varðaði. Sem dæmi nefndi hann að taka þyrfti tillit til mikilvægra fuglasvæða, sjaldgæfra plöntutegunda og fleiri þátta við skipulagningu skógræktar en ekki síður að leggja áherslu á að rækta fallega skóga. Einnig nefndi Þröstur ýmis brýn viðfangsefni sem snertu skóga og ferðaþjónustu. Jafnvel þótt Skógrækt ríkisins hefði staðið sig vel í þeim efnum að mörgu leyti mætti enn gera betur.

Nýr skógræktarstjóri telur sig taka við góðu búi frá Jóni Loftssyni en nauðsynlegt sé að snúa við þeirri þróun sem hér á landi hefur verið frá efnahagshruninu. Þá hafi um 6 milljón tré verið gróðursett á ári hverju en helmingi færri trjáplöntum er plantað á ársgrundvelli nú.  Þröstur segir skammtímahugsun ekki eiga við í skógræktarmálum og að nauðsynlegt sé að huga að frekara skógaruppeldi. „Það er þetta skógaruppeldi sem við tölum gjarnan um að koma þessari hugsun á framfæri við fólk að það þurfi nú að hugsa í aðeins lengri tímabilum heldur en bara til eins eða tveggja ára ef menn ætla að ná þeim markmiðum að koma hér upp skógarauðlind og fara að nýta hana.“