„Nýr kafli í sögu mannsins á Írlandi“

21.03.2016 - 11:06
epa01942724 Huge waves driven by high winds lash the coastline and lighthouse at Porthcawl, in south Wales 23 November 2009.  Between 30 and 40mm of rain is predicted in parts of the UK, with gusts of up to 70mph. It's not thought that conditions
 Mynd: EPA  -  NTI
Saga mannsins á Írlandi er mun eldri en áður var talið. Vísindamenn hafa rannsakað bjarnarbein sem benda til þess að maðurinn hafi verið á Írlandi fyrir 12.500 árum, mun fyrr en hingað til hefur verið talið.

Vísindamenn hafa rannsakað bjarnarbein sem fannst í írskum helli og segja að greining á því sýni að saga mannsins á Írlandi sé 2.500 árum eldri en áður var talið. Áratugum saman hafa elstu vísbendingar um tilvist manna á Írlandi verið frá 8.000 fyrir krist. 

„Nýr kafli í sögu mannsins á Írlandi.“

Geislakolsmælingar sem notaðar eru til að greina aldur lífrænna efna benda til þess að menn hafi drepið björninn 10.500 árum fyrir krists burð eða fyrir 12.500 árum. Marion Dowd, fornleifafræðingur hjá vísindastofnun í Sligo-sýslu í Connacht á vesturströnd Írlands er í hópi þeirra vísindamanna sem rannsakað hafa bjarnarbeinin. Hann segir þetta mikil tíðindi.

„Þetta er nýr kafli í sögu mannsins á Írlandi."

Vísindamenn segja að bein úr hné bjarnarins sýni að beitt áhald hafi verið notað en beinið er eitt af mörg þúsund beinum sem fundust árið 1903 í helli í Clare-sýslu í héraðinu Munster á Suðvestur-Írlandi. 

Bjarnarhræið úrbeinað fyrir 12.500 árum

Beinin voru geymd í Þjóðminjasafni Írlands frá 1920 þar til Marion Dowd og Ruth Carden hófu rannsóknir á þeim í samvinnu við Þjóðminjasafnið og fengu styrk til að aldursgreina þau með geislakolsmælingu. Vísindateymið sendi einnig sýni til Oxford-háskóla og niðurstaðan var sú sama á báðum stöðum, að bjarnarhræið hefði verið úrbeinaður fyrir 12.500 árum.

Lengi leitað sannana

Þetta þýðir að saga mannsins á Írlandi nær aftur til steinaldar eða fornsteinaldar en hingað til hafa vísindamenn talið að saga mannsins þar hafi aðeins náð til miðsteinaldar. Dowd segir að fornleifafræðingar hafi lengi leitað að sönnun fyrir tilvist manna á Írlandi frá fornsteinöld og nú sé fyrsta sönnun þess fundin. 

Mikil áhrif á dýrafræðina

Þrír vísindamenn hafa staðfest að skurðir á beininu hafi verið gerðir þegar dýrið var nýfallið og séu því frá sama tíma og dýrið. Niðurstöður rannsóknarinnar voru nýverið birtar í ritrýndu vísindatímariti. Saga mannsins á Írlandi er því mun lengri en áður var talið og uppgötvunin hefur einnig áhrif á dýrafræðina. Maðurinn gæti hafa haft áhrif á það að ýmsar dýrategundir urðu útdauðar, löngu fyrr en áður var talið.

Að hugsa út fyrir rammann - eða rífa hann alveg

Ruth Carden segir að þetta sé gríðarlega mikilvægt innlegg í dýrafræðina. Niðurstaða rannsóknarinnar hljóti að leiða til líflegra skoðanaskipta um dýrafræði.

„Það er kominn tími til að hugsa út fyrir rammann eða jafnvel rífa rammann alveg í tætlur."

Í Þjóðminjasafni Írlands eru tvær milljónir dýrabeina sem bíða samskonar rannsóknar. Nigel Monaghan, yfirmaður fornleifadeildarinnar, segir að spennandi tímar séu framundan.

„Aldursgreining með geislakolsmælingum var óþekkt þegar beinin fundust í hellum fyrir rúmri öld og líklega geta þau sagt okkur miklu meira um fortíðina á Írlandi."

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV