Nýr fréttaskýringaþáttur í sjónvarpi

19.05.2017 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýr fréttaskýringaþáttur í sjónvarpi hefur göngu sína á RÚV í haust. Þar verður lögð áhersla á rannsóknarblaðamennsku, fréttaskýringar og dýpri umfjöllun um fréttamál.

Nýi þátturinn verður sýndur vikulega. Hann er svar við ákalli um enn meiri rannsóknarblaðamennsku, fréttaskýringar og dýpri úttekt. Kastljós hefur boðið upp á margar slíkar umfjallanir en stefnt er að því að auka þennan þátt til muna með nýja fréttaskýringaþættinum.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV, greindi frá fyrirhuguðum fréttaskýringaþætti í ræðu sinni á málþingi um stefnu RÚV í gær. Hann sagði að gríðarleg áhersla yrði lögð á þáttinn. Þar yrði boðið upp á fréttaskýringar þar sem væri farið djúpt í mál, rannsóknarblaðamennsku og fréttir af erlendum vettvangi. 

Þetta er fyrsti fréttaskýringaþátturinn í íslensku sjónvarpi frá því Fréttaaukinn var tekinn af dagskrá snemma árs 2010 vegna niðurskurðar. 

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, segir að engar aukafjárveitingar fáist til gerðar fréttaskýringarþáttarins heldur verði fjármunir og mannskapur færðir til innan RÚV svo hann verði að veruleika. Þetta leiði meðal annars til breytinga á Kastljósi sem dragist saman þar sem hluti af mannskap og fjármagni sem farið hefur í gerð Kastljóss verður nýtt í gerð nýja þáttarins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV