Nýr dómstóll um stríðsglæpi í Kosovo

15.01.2016 - 18:44
epa00181539 Ethnic Albanians shout slogans and hold a flag of the Kosovo Liberation Army (UCK) during a protest in Srbica, northern Kosovo, Thursday 29 April 2004. Some thousand ethnic Albanians gather in the town of Srbica to protest against the arrest
 Mynd: EPA
Setja á upp nýjan dómstól í Haag í Hollandi til að fjalla um stríðsglæpi í Kosovo á árunum 1999 og 2000. Hollenska stjórnin greindi frá þessu í dag og sagði að gert væri ráð fyrir að dómstóllinn tæki til starfa síðar á þessu ári.

Í tilkynningu hollenska utanríkisráðuneytisins sagði að dómstóllinn myndi fjalla um meinta stríðsglæpi Frelsishers Kosovo UCK gegn minnihlutahópum og pólitískum andstæðingum á þessum árum, en þá tilheyrði Kosovo Serbíu.

Þótt dómstóllinn hafi aðsetur í Haag og sé skipaður dómurum víðs vegar að, verður hann hluti af dómskerfi Kosovo.

Í nokkur ár hefur verið þrýst á stjórnvöld í Pristina að stofna dómstól til að fjalla um meinta glæpi UCK, eða síðan Evrópuráðið birti skýrslu árið 2011, þar sem skýrsluhöfundurinn Dick Marty tíundaði glæpi liðsmanna samtakanna. Þar koma fram ásakanir á hendur UCK um mannrán, aftökur án dóms og laga og sölu á líffærum úr föngum.

Fullyrt er í skýrslunni að liðsmenn samtakanna hafi pyntað og drepið um 500 fanga, aðallega Serba og Rómafólk. Í tilkynningu hollensku stjórnarinnar segir að þetta séu afar viðkvæm mál í Kosovo og því hafi verið ákveðið að dómstóllinn hafi aðsetur á erlendri grund.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV