Nýju læk hnapparnir vefjast fyrir notendum

25.02.2016 - 20:31
Læk hnappurinn á Facebook hefur fengið andlitslyftingu. Merking læksins hefur verið frekar óljós en notendur geta nú tjáð tilfinningum sínar með nýjum hnöppum. Óformleg könnun fréttastofu sýnir að notendur virðast þó áfram í vafa um hvað eigi við hverju sinni.

„Handleggsbrotnaði í dag og vann stuttu síðar í happdrætti." Nokkurn veginn svona hljómaði færsla sem fréttamaður  setti á facebook-vegginn sinn í dag. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og síðdegis höfðu yfir hundrað manns smellt á læk eða aðra hnappa.

Áður var það aðeins læk-hnappurinn, sem notendur gátu smellt á til að sýna viðbrögð sín án þess að setja inn athugasemd. Um notkun hans hefur verið deilt, meira að segja fyrir dómstólum hér á landi. Nú hefur Facebook breyst, og hægt er að sýna tilfinningar á borð við reiði, gleði, grát og undrun.

Flestir smelltu á læk-hnappinn við þessa færslu en þónokkrum fannst hún kalla á viðbragðið wow og þeir hafa því verið furðu lostnir þegar þeir lásu hana. Nemendur í Háskólanum á Akureyri voru ekki allir sammála um hvaða viðbrögð væru viðeigandi. 

Viðbrögð þeirra má sjá í spilaranum hér að ofan.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV