Nýja silkileiðin

19.05.2017 - 09:39
Athyglisverðum tveggja daga leiðtogafundi lauk í Beijing í Kína á mánudag. Þar staðfestu Xi Jinping, forseti Kína, og 29 aðrir þjóðarleiðtogar vilja sinn til að efla frjáls og greið viðskipti í anda frumkvæðis stjórnarinnar í Beijing sem nefnt hefur verið „Belti og vegur,“ eða Nýja silkileiðin.

Um er að ræða risavaxin áform um vegi, brautarteina, hafnir og leiðslur. Það var haustið 2013 sem Xi Jinping lýsti áhuga sínum á að Kína og lönd í Mið-Asíu endursköpuðu hina fornu silkileið. Heitið er dálítið ruglingslegt, verður að segja: „Belti og vegur.“ „Beltið“ er kerfi vega og brautarteina sem tengja eiga Vestur-Kína við Mið-Asíu, Rússland, Suður-Asíu, og leiðir að Miðjarðarhafslöndum og í Persíu. „Vegurinn“ er á hinn bóginn sjávarleiðin frá Kína meðfram Asíuströndum til Afríku og Evrópu. „Beltið“ og „vegurinn“ mega að samanlögðu kalla „Nýju silkileiðina.“ Markmiðið Kínverja með frumkvæði sínu er að tengjast betur 65 löndum, þar sem býr á fimmta milljarð manna.

En aftur til fundarins í Beijing. Í lok hans sagði Xi, Kínaforseti: „Það er von okkar að Beltis og vegar-verkefnið leysi úr læðingi efnahagskrafta, sem skapi forsendur fyrir nýrri þróun í heiminum og auki stöðugleika í alþjóðavæðingu heimsins – svo mannkynið færist nær því að verða ein heild með sameiginleg örlög.“ Þessi orð geta svo sem þýtt ýmislegt, en er forsetinn ekki að segja að alþjóðavæðingin hafi til þessa verið leidd af gömlu, ríku og þróuðu ríkjum Vesturlanda, en eftir hafi setið vanþróaðri lönd? Það hafi skapað ójafnvægi. Kínaforseti hvetur ríki heims til að fagna alþjóðavæðingunni, enda stendur eða fellur háskalega hraðvaxta hagkerfi Kína einmitt á því – að landið verði áfram verkstæði heimsins og eitt mikilvægasta markaðsland annarra þjóða vegna þeirrar gríðarlega fjölmennu miðstéttar sem orðin er til í landinu.

Á leiðtogafundinum í Beijing lýstu 30 ríki vilja til að efla frjáls viðskipti og brjóta á bak aftur verndarstefnu – ekki síst fyrir tilverknað nýju silkileiðarinnar. Leiðtogar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Sameinuðu þjóðanna tóku þátt í fundinum, þau Christine Lagarde og Antonio Guterres. Bæði fögnuðu þau þessu frumkvæði til að tengja saman mennningarsvæði og bæta lífskjör fólks.  „Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að efnahagskerfi heimsins þjóni öllum íbúum hans,“ sagði Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Vladimír Pútin, Rússlandsforseti, var þarna líka og sagði að fátækt og félagsleg upplausn fæddu af sér alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi, öfga og fólksflótta. „Við getum ekki mætt þessum áskorunum ef okkur mistekst að vinna bug á stöðnuninni í hagþróun heimsins,“ sagði Pútín. Já, þeir voru þarna Pútín og Erdogan, Tyrkjaforseti, en það voru Kínverjum vonbrigði hversu treglega Evrópusambandið tók frumkvæði Xi Jinping um þessa risavöxnu og fjárfreku samgönguáætlun – nýju silkileiðina. Evrópusambandið er ekki sátt við að þessum fyrirætlunum skuli ekki fylgja skuldbindingar um félagslega og umhverfislega sjálfbærni og gagnsæi. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Þarna skilur á milli Kína og Evrópu. Evrópa er auðvitað á allt öðrum stað í tilverunni hvað varðar vinnuréttindi, umhverfisvitund og gagnsæja stjórnsýslu heldur en Kína. En eftir er þó að sjá hvort gamla Evrópa neyðist ekki til að taka þátt í þessum fyrirætlunum risans í austri – Kína. Taka ber fram í þessu sambandi að fulltrúar nokkur Evrópusambandsríki áttu sendifulltrúa í fundinum í Beijing: Þýskaland, Belgía, Eistland, Ungverjaland, Ítalía og Spánn. Kínverjar höfðu vonast til að öll Evrópusambandsríkin sendu fulltrúa – og fleiri til. Kínastjórn hafði lýst þessum maífundi í Beijing sem mikilvægustu heimsráðstefnu ársins og leiðtogar frá öðrum Asíuríkjum, Afríku og meira að segja Suður-Ameríku svöruðu kallinu og sýndu stuðning sinn í verki og flugu til Beijing. En þarna vantaði Donald Trump, Angelu Merkel og Theresu May. Þá lýstu Indverjar andstöðu sinni við ráðagerðir Kínverja, sem dagblaðið Times of India kallaði „nýlenduverkefni.“ Samkvæmt heimildum breska blaðsins The Guardian ákvað Evrópusambandið að lýsa ekki stuðningi sínum við frumkvæðið vegna þess að engin merki sáumst um að fjölmargar athugasemdir, sem það gerði við Kínastjórn, hefðu náð inn í drög að lokayfirlýsingu fundarins. Ónefndur stjórnararerindreki staðfesti við frönsku AFP-fréttastofuna að mörg aðildarríki Evrópusambandsins hefðu hafnað því að lýsa stuðningi við viðskiptayfirlýsingu Kínastjórnar. Hinsvegar hefur komið fram að hálfvolg breska ríkisstjórnin lýsir ánægju með frumkvæði Kínverja - þó hún hafi ekki átt fulltrúa á lokafundinum í Beijing, þar sem gengið var frá yfirlýsingunni.

Á síðari degi Beijing-fundarins áréttaði Xi Jinping að silkileiðar-áætlunin væri opin öllum sem hefðu svipaðar hugmyndir og Kínverjar – áætluninni væri hvorki ætlað að útiloka neinn né beindist hún gegn einhverjum. Þá er stóra spurningin: Getur þessi fjárfreka áætlun hleypt nýju lífi i efnahag Kína, með því að dreifa umframgetu iðnaðarins til vanþróaðri ríkja og draga fátækari lönd nær efnahagsvaldinu í Beijing? Slíkum efasemdum vísa opinberir aðilar í Kína á bug, segja að sum ríki séu með yfirráðastefnu á heilanum og eitthvert valdaspil. Fyrirætlanir Kínverja séu ekki ný gerð af nýlendustefnu, eða fyrirætlun um að ná yfirráðum á orkulindum annarra þjóða. He Jington, prófessor i viðskiptafræðum við Nankai-háskólann í Tianjin sagði einfaldlega, að samsæriskenningarnar héldu ekki vatni. „Ef litið er til sögunnar, segið mér: Hvenær hefur Kína verið nýlenduveldi? Það hefur ekki verið það. Hvers vegna ætti það að gerast núna?" Þannig mælti kínverski prófessorinn.

Að lokum þetta: Hvað á nýja áætlunin, kennd við belti og veg, ekki belti og axlabönd – nýja silkileiðin, að kosta? Það er eiginlega út í hött að umreikna þetta yfir í íslenskra krónur. Xi Jinping, forseti Kína, hefur talað um 124 milljarða dollara. Sannarlega há fjárhæð og áformin eru metnaðarfull. Þeim er ætlað að treysta um langa framtíð stöðu Kína í heimskerfi efnahagslífs og viðskipta. Og þeir spyrja aðrar þjóðir: Ætlið þið að vera með?

 

epa05965255 Russian President Vladimir Putin (L), Chinese President Xi Jinping (C) and Argentinian President Mauricio Macri (R) attend the Roundtable Summit Phase One Sessions of Belt and Road Forum at the International Conference Center in Yanqi Lake,
 Mynd: EPA  -  GETTY IMAGES POOL
Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi