Ný gögn um falsanir Macchiarinis

13.02.2016 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Also known as the nobel prize university since they're the ones that give out the nobel prize
 Mynd: SteFou from Toronto, Canada  -  Wikipedia Commons
Anders Hamsten, rektor Karólínska-háskólans, hefur sagt af sér embætti vegna plastbarkahneykslisins svonefnda, sem skekið hefur sænskt vísindasamfélag undanfarna mánuði. Nýjar upplýsingar um starfshætti ítalska læknisins Paolo Macchiarini voru kornið sem fyllti mælinn.

Hamsten greindi opinberlega frá ákvörðun sinni í grein í dagblaðinu Dagens Nyheter. Þar segist hann meðvitaður um að trúverðugleiki hans sem rektors hafi beðið hnekki, jafnt hjá almenningi sem vísindasamfélaginu, og einnig hjá hluta starfsfólks og nemenda háskólans. Ljóst sé að það geti reynst honum afar erfitt að gegna stöðu rektors í öflugasta háskóla Svíþjóðar af þeim krafti og trúverðugleika sem staðan krefjist. Því hafi hann ákveðið að segja henni lausri.

Hamsten hefur að öðru leyti ekki rætt við fjölmiðla en Dagens Nyheter hefur eftir Jan Carlstedt-Duke, prófessor við Karólínska, að ástæða ákvörðunar hans séu nýjar upplýsingar um starfshætti Paolo Macchiarini, ítalska læknisins sem græddi plastbarka í Erítreumanninn Andemariam T. Beyene. Hann var á þeim tíma var búsettur á Íslandi og þjáðist af banvænu krabbameini. Íslenskur læknir hans tók þátt í aðgerðinni.

Þessi nýju gögn benda til að Macchiarini hafi falsað skýrslur um tilraunir vegna ígræðslunnar. Átt hafi verið við myndir sem áttu að sýna frumuræktun og ástand dýra fyrir og eftir tilraunir og sömu myndirnar hafi verið notaðar í mismunandi dæmum til að gefa til kynna að tilraunirnar hafi verið fleiri en þær í raun og veru voru. Myndirnar hafi verið verið notaðar í greinum sem birtust í vísindaritum og undrast prófessorinn að ekki hafi komist upp um svikin þá.

Fyrir rúmri viku lýsti stjórn Karólínska háskólans að hún styddi Hamsten rektor, þrátt fyrir hneykslið í kringum Macchiarini. Í morgun hafði sænska ríkisútvarpið SVT eftir Lars Leijonborg, formanni stjórnarinnar, að hann virti ákvörðun Hamsten um að segja af sér, rektorinn hefði augljóslega ekki áttað sig á hve alvarlegt málið væri.

Also known as the nobel prize university since they're the ones that give out the nobel prize
 Mynd: SteFou from Toronto, Canada  -  Wikipedia Commons