Ný flóttaleið að opnast til Evrópu

13.09.2017 - 10:11
Yfirvöld í Rúmeníu björguðu í nótt 150 flóttamönnum af báti á Svartahafi. Flestir voru þeir frá Írak, þar af um 50 konur og álíka fjöldi barna. Þetta er fimmta skipti sem Rúmenar bjarga bátaflóttamönnum úr háska á Svartahafi frá því í ágúst.

Rúmensk yfirvöld segja að þetta sýni að ný flóttaleið fyrir flóttafólk og hælisleitendur sé að opnast yfir Svartahaf til Evrópu. Rúmenía er í Evrópusambandinu en á ekki aðild að Schengen svæðinu. Landið hefur til þessa að mestu sloppið við straum flóttamanna.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV