Notaði „60 minutes“ til að selja hugmynd sína

09.02.2016 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube  -  RÚV
Einar Ágústsson, sem hefur verið ákærður fyrir fjársvik og brot á gjaldeyrislögum, er í röksemdum saksóknara fyrir málsókninni sagður hafa notað bandaríska fréttaskýringaþáttinn 60 minutes til að selja Íslendingi þá hugmynd að fjárfesta í Skajaquoda-sjóðnum. Í þættinum var fjallað um svokölluð hátíðniviðskipti þar sem forritaðar ofurtölvur kaupa og selja hlutabréf á Wall Street .

Ákæran og röksemdir saksóknara á hendur Einari er ítarleg , 15 síður, og þar eru meint brot hans rakin ítarlega. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudag en ákæran er dagsett á Þorláksmessu. Brot Einars er sögð hafa staðið frá árinu 2009 til ársins 2013. Hann er krafinn um rúmar 70 milljónir.

Einari er meðal annars gefið að sök að hafa fengið Íslendinga til að leggja rúmar sjötíu milljónir til eignarhaldsfélagsins Skajaquoda. Hann er sagður hafa haldið því fram að hann starfrækti fjárfestingarsjóð undir þessu nafni í Bandaríkjunum - í ákærunni kemur fram að öll gögn málsins bendi til þess að sjóðurinn hafi aldrei verið stofnaður. 

Í röksemdum saksóknara fyrir málsókninni er Einar sagður hafa kynnt svokölluð hátíðniviðskipti fyrir íslenskum viðskiptavinum sínum. Sú aðferð er notuð af stórum bandarískum fyrirtækjum - hún er umdeild enda kemur mannshöndin þar hvergi nærri heldur eru ofurtölvur forritaðar til að eiga í hlutabréfaviðskiptum. 

Einar er sagður hafa sent tölvupóst til Íslendings sem síðar lagði rúmar 40 milljónir í verkefnið. Í tölvupóstinum var tengill á bandaríska fréttaskýringaþáttinn 60 minutes frá árinu 2010 þar sem fjallað var um þessi hátíðniviðskipti. 

Vitnað er beint í tölvupóst Einars til þessa Íslendings. Hann segir að þetta sé aðferð „sem sjóðurinn minn beitir núna“ og „eins og þú sérð í þættinum þá er um að gera að stökkva á þetta tækifæri af öllu afli á meðan það er í boði.“

Viðkomandi Íslendingur fór að hafa áhyggjur af peningum sínum eftir að hann frétti af rannsókn sérstaks saksóknara. Hann er sagður hafa ítrekað krafið Einar um svör og um peningana sína en án árangurs.

Íslensk hjón, sem fjárfestu einnig í þessum sjóði Einars, eru sögð hafa fengið regluleg yfirlit um ávöxtun sína og fréttabréf sem stíluð voru á sjóðsfélaga.  Í einu þeirra, sem hjónunum barst í ágúst 2012, kom fram að þar sem Skajaquoda Group væri á leiðinni á hlutabréfamarkað væri „tímabundið lokað fyrir viðskipti með bréfin og því væri ekki hægt að kaupa nýja hluti né innleysa núverandi hluti.“

Hjónin leituðu til lögmanns fyrir þremur árum til að reyna ná aftur peningum sínum. Fram kemur röksemdum saksóknara að „kröfugerð og málarekstur lögmannsins gagnvart ákærða í því skyni reyndist árangurslaus. Verður að telja fjármunina að fullu glataða.“