Nota lyf gegn laxalús í Arnarfirði

19.05.2017 - 18:52
Myndir af laxalús frá Noregi
 Mynd: NRK
Matvælastofnun hefur samþykkt að lúsugur lax í eldisstöð í Arnarfirði fái lyf. Talning í vor sýndi að laxalúsum fer fjölgandi og báðu forsvarsmenn eldisins því um að fá að meðhöndla fiskinn. Þetta er í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum sem lyf eru gefin við laxalús í eldiskvíum hér á landi. 

Hár sjávarhiti

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að vegna mikilla hlýinda í vetur hafi verið meira af lúsinni en venjulega. Meðalhiti sjávar í Arnarfirði var 3,5 gráður í febrúar á þessu ári en 1,5 gráða á sama tíma í fyrra.  Aðgerðirnar miða að því að fyrirbyggja að smitið magnist upp með hækkandi sumarhita og tryggja að seiði sem fara í kvíar í vor þurfi ekki að búa við aukna hættu á smiti.  

Ekki gerð krafa um vöktun né talningu á lús

Vandamál tengd laxalús hafa ekki verið til staðar hér á landi enda hafa aðstæður ekki verið henni hagfelldar. Hún hefur aftur á mót valdið miklum usla í Noregi. Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að með vaxandi hitastigi sjávar þurfi að vera meira á varðbergi gagnvart lúsinni. Íslensk löggjöf gerir hvorki kröfu um vöktun né talningu á lús en gerð er krafa um talningu í gæðavottunum sem flest eldisfyrirtæki hafa sótt um. Matvælastofnun vinnur nú að leiðbeiningum um vöktun á laxalús og verklag við talningu, þær fela í sér að niðurstöðum talninga skuli skilað til stofnunarinnar.