Norsk útgerð vildi tryggingabætur Hallgríms SI

30.01.2016 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Hæstiréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna bæri kröfu norsks útgerðarfélags sem vildi að íslenska útgerðarfélagið Ásvellir yrði úrskurðað gjaldþrota. Málið snýst um skipið Hallgrím SI 77 sem sökk á siglingu til Noregs í janúar fyrir fjórum árum. Norskur skipasali sem annaðist söluna á Hallgrími var dæmdur til refsingar fyrir fjársvik vegna skipsins.

Þrír úr áhöfninni létust þegar Hallgrímur sökk en einn komst lífs af - Eiríkur Ingi Jóhannsson. Frásögn af björgun hans vakti mikla athygli en hann var í flotgalla á reki í stórsjó klukkutímum saman.

Norska útgerðin taldi sig eiga rétt á því að fá tryggingabæturnar sem íslenska útgerðin fékk þegar skipið sökk - svokallaða húftryggingu. Það hefði greitt fyrir skipið og hefði tekið við því áður en það sökk. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að íslenska útgerðarfélagið hafi fengið 82 milljónir í húftryggingu.

Þessu vísaði íslenska útgerðin á bug. Það hefði endurgreitt þann pening sem norska útgerðin hefði borgað fyrir skipið - 1,4 milljónir norskra króna og þar með hefði sölunni verið rift. 

Þá bendir íslenska útgerðin á að húftryggingunni hafi að mestu leyti verið varið í útfararkostnað og dánarbætur auk sjúkrakostnaðar, launa og skaðabóta fyrir Eirík Inga. Ekki hefði verið tekið tillit til þess við framsetningu á kröfu norsku útgerðarinnar.

Þá var á það bent að dómstóll þyrfti fyrst að úrskurða hver ætti að greiða fyrir flutning skipsins til Noregs, dánarbætur áhafnar, útfararkostnað og bætur til eftirlifandi - þær fjárhæðir hlaupi á tugum milljóna.

Athygli vekur að í dómnum kemur fram að norskur skipasali, sem annaðist söluna á Hallgrími á sínum tíma, var dæmdur til refsingar í heimalandi sínu fyrir að hafa blekkt starfsfólk íslensku útgerðarinnar til að leggja endurgreiðsluna inn á eigin reikning.