Nokkur kíló til eða frá geti breytt miklu

23.02.2016 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Tony Alter  -  Flickr
Ný rannsókn sýnir að þeir sem eru í yfirþyngd þurfi ekki að missa nema um fimm prósent af líkamsþyngd sinni til að draga úr hættu á sykursýki og hjartasjúkdómum.

Rannsóknin var gerð við Washington University School of Medicine í St. Louis og birt í tímaritinu Cell Metabolism. Hún fór þannig fram að 40 of feitum körlum og konum var af handahófi raðað í tvo hópa. Annar hópurinn var settur á hitaeiningaskert mataræði og hinn hópurinn átti að halda sinni líkamsþyngd.  

Vísindamennirnir litu sérstaklega til þeirra sem misstu fimm, tíu og fimmtán prósent af líkamsþyngd sinni og fundu út að umtalsverðar breytingar hafi orðið á heilsufari hópsins sem léttist minnst og dregið úr hættu á sykursýki og hjartasjúkdómum.  

Þau nítján sem voru í fimm prósenta hópnum reyndust með lægri blóðþrýsting, lægra hlutfall af þríglýseríð fitu í blóðinu, minni fitu í lifrinni og lægri blóðsykur.   

„Niðurstöður okkar sýna að þú færð mikið út úr því að léttast um fimm prósent af líkamsþyngdinni,“ segir Samuel Klein, stjórnandi Næringarfræðimiðstöðvar Washington háskóla. Hann fór fyrir rannsókninni. 

Þeir sem léttust um tíu prósent eða meira af líkamsþyngd sinni sáu ekki fram á betri stöðu lifur og fitu en hjá fimm prósenta hópnum. Þetta þykir benda til þess að hámarkinu hafi verið náð við fimm prósenta mörkin. 

Samkvæmt núgildandi viðmiðum í Bandaríkjum er fólki sem glímir við offitu ráðlagt að léttast um fimm til tíu prósent af líkamsþyngd sinni. „Þessi rannsókn er góðar fréttir fyrir fólk sem á erfitt með að léttast því hún bendir til þess að jafnvel mjög lítið þyngdartap geti haft jákvæð áhrif á hjartað,“ segir Tracy Parker, næringarráðgjafi hjá Bresku hjartastofnuninni. „Rannsóknin er áminning um ávinninginn af því að ná heilbrigðri þyngd jafnt og þétt.“

Klein segir að frekari rannsókna sé þörf til að finna út hvort sykursjúkir kunni að sýna álíka viðbrögð við fimm prósenta þyngdartapi. Þangað til, megi segja að minna sé meira þegar komi að því að setja sér raunhæf markmið.  

„Ef þú vegur 91 kíló, þá værir þú að gera sjálfum þér greiða ef þú gætir létt þig um fjögur og hálft kíló og viðhaldið þeirri þyngd,“ segir Klein.  „Þú þarft ekki að léttast um 23 kíló til að bæta heilsuna.“