Níu af hverjum tíu Íslendingum eiga snjallsíma

14.07.2016 - 11:39
Iphone snjallsími
 Mynd: Pixabay
Hlutfall Íslendinga sem eiga snjallsíma hefur aukist talsvert undanfarin misseri, eða um 10 prósentustig á síðastliðnum 16 mánuðum. Um 87% landsmanna eiga nú snjallsíma. Hlutfallið er hæst meðal námsmanna en lægst hjá bændum og sjómönnum. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR.

Talverður munur er á snjallsímaeign eftir aldri, en 96% svarenda á aldrinum 18-49 ára eiga slíkt tæki. Um 74% landsmanna á aldrinum 50-67 ára eiga snjallsíma og 58% fólks 68 ára og eldri. Einnig er má sjá nokkurn mun á snjallsímaeign eftir tekjum en þeir sem hafa hærri tekjur eru líklegri til að eiga snjallsíma. Þá er fólk á höfuðborgarsvæðinu örlítið líklegra en fólk á landsbyggðini til að eiga snjallsíma. Allir námsmenn sem tóku afstöðu til spurningarinnar áttu snjallsíma.

Könnunin var framkvæmd dagana 27. júní til 4. júlí 2016 og var heildarfjöldi svarenda 924 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Atli Þór Ægisson
Fréttastofa RÚV