Neytendastofa fengið ábendingar vegna H&M-poka

23.08.2017 - 09:26
Mynd með færslu
H&M opnar sína fyrstu verslun hér á landi á laugardag.  Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, segir að Reykjavíkurborg geti ekki þóst vera stikkfrí vegna stórrar H&M-auglýsingar sem komið hefur verið fyrir á Lækjartorgi. Borgin hafi leyft auglýsingu sem gangi í berhögg við lög um að auglýsingar sem höfða eigi til íslenskra neytenda skuli vera á íslenskri tungu. Neytendastofu hafa borist nokkrar ábendingar vegna auglýsingarinnar.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Eiríks þar sem hann deilir umfjöllun Morgunblaðsins um umdeilda auglýsingu H&M sem borgin gaf leyfi fyrir. Auglýsingin er í líki stórs innkaupapoka þar sem boðuð er opnun fataverslunarinnar á ensku: „Grand Opening,“ stendur skrifað stórum stöfum. „See you in Smáralind," stendur undir.

Eiríkur segir að auðvitað sé ein auglýsing bara smámál, hún breyti engu um stöðu íslenskunnar til eða frá. „En þetta er bara dæmigert fyrir það andvaraleysi sem ríkir gagnvart tungumálinu - enginn telur það hlutverk sitt að gæta hagsmuna þess.“ Enskan flæði alls staðar yfir án þess að nokkur geri nokkuð í því og það veiki varnir íslenskunnar.

Hann segir að borgin geti ekki þóst vera stikkfrí. Ákvæði laga séu skýr og það sé augljóst að auglýsingu H&M sé ætlað að höfða til Íslendinga frekar en ferðamanna. „Borgin á auðvitað ekki að leyfa auglýsingu sem gengur í berhögg við lög.“ Eiríkur kveðst hafa sent fyrirspurn til Neytendastofu um hvað hún ætli að gera til framfylgja lagaskyldu sinni í þessu efni en hann hafi engin svör fengið.

Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri á neytendaréttarsviði Neytendastofu, segir í samtali við fréttastofu að Neytendastofa hafi fengið nokkrar ábendingar í svipuðum dúr þar sem gerðar eru athugasemdir við notkun ensku í auglýsingu H&M. „Við ætlum að senda á þá línu og minna þá á þessa reglu - að auglýsingar sem beint er til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku.“ Þórunn segir að þetta verði, til að byrja með, vinsamleg ábending.

H&M opnar sína fyrstu verslun á Íslandi í Smáralind á laugardag en útvöldum hefur verið boðið í sérstakt opnunarteiti verslunarinnar á fimmtudag. Á vef Nútímans kemur fram að þeim verði boðið upp á mat, drykk og tónlistaratriði og 20 prósent afslátt af fatnaði.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV