Neyðarfundur um fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila

11.01.2016 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Boðað hefur verið til neyðarfundar vegna bágrar fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Ríkið hefur enn ekki gert þjónustusamning við hjúkrunarheimilin þrátt fyrir lögbundna skyldu um að gera slíkan samning.

Á fimmta tug hjúkrunarheimila eru í landinu. Í síðasta mánuði þurftu stjórnendur heimilanna að fara þess á leit við ríkið að það greiddi janúargreiðslu til heimilanna fyrirfram svo hægt væri að greiða út laun um áramótin.

Fjárhagsleg staða margra hjúkrunarheimila í landinu er orðin svo slæm að Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa boðað til félagsfundar á Hrafnistu í Kópavogi á föstudag. Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður SFV segir að það megi sannarlega kalla þennan fund neyðarfund, ástandið verði sífellt verra og að kjarasamningar síðasta árs hafi verið kostnaðarsamir. „Það gengur hægt og illa að fá launabætur vegna þessara samninga og við teljum að í mörgum tilvikum sé ríkið að reikna okkur lægri launabætur en nemur kostnaði,“ segir Gísli Páll.

Hann segir að í ársgamalli skýrslu Ríkisendurskoðunar komi fram að hjúkrunarheimilin vanti milljarð til viðbótar frá ríkinu til að endar nái saman. Síðan þá hafi staðan ekki batnað.

„Þetta er svona milljarður til einn og hálfur milljarður á ári sem vantar í þennan rekstur. Viðkvæðið er yfirleitt það að það séu ekki til meiri peningar í þennan málaflokk og það er kannski alveg sjónarmið, en við verðum þá bara að skera þjónustuna eitthvað niður eða sinna færri einstaklingum, sem verður nú ansi erfitt því biðlistarnir eru að lengjast, þeir eru ekki að styttast.“

Ríkið hefur enn ekki gert þjónustusamning við hjúkrunarheimili aldraðra þrátt fyrir að slíkur samningur sé bundinn í lög.

Sjúkratryggingar Íslands og hjúkrunarheimilin hafa ekki enn náð samkomulagi þrátt fyrir tugi samningafunda á síðasta ári. Heilbrigðisráðherra sagði í nóvember í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi að vinnunni miðaði vel og að þjónustusamningurinn yrði væntanlega kynntur fyrir áramót. Það varð ekki.

Gísli Páll segist hafa trú á að það náist á þessu ári, en hann er ekki bjartsýnn á að það verði á næstu mánuðum.

Sveitarstjórnarmenn hafa viðrað þann möguleika að skila rekstri hjúkrunarheimilanna alfarið til ríkisins.

„Já, já, Garðabær er að vinna í því, hjúkrunarheimilið Ísafold. Það er verið að ræða við heilbrigðisráðherra um að ríkið taki við því aftur.“

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV