Neyðarástandi lýst yfir í Charlottesville

12.08.2017 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: CBS
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Charlotteville í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum. Hundruð manna sem kalla sig hvíta þjóðernissinna, hafa gengið fylktu liði í borgini í gærkvöld og í dag og hrópað slagorð á borð við „Líf hvítra skipta máli“; „ein þjóð, eitt ríki - stöðvum aðflutning fólks“; og „þið munið ekki ýta okkur til hliðar“.

Hundruð mótmælenda fóru um Charlotteville með kyndla í hönd í gærkvöld. Andstæðingar göngumanna segja kyndilgönguna minna á Ku Klux Klan - samtök sem barist hafa gegn auknum réttindum blökkumannna. Til átaka kom í gærkvöld milli kyndilberanna og fólks sem mótmælti göngu þeirra.

Emily Gorcenski hefur birt fjölda myndbanda frá Charlotteville á Twitter-síðu sinni.

Mótmæli hvítra þjóðernissinna héldu áfram í dag. Margir þeirra söfnuðust saman í miðborg Charlotteville, með hjálma og skyldi, og Suðurríkjafána, og hrópuðu slagorð sem New York Times segir minna á Nasista. Upp úr hádegi brutust út slagsmál milli mótmælendanna og andfasista, þar sem kylfum var meðal annars beitt. Borgaryfirvöld bönnuðu samkomuna og lýstu yfir neyðarástandi í borginni.

Talið er að þúsundir mótmælenda komi til Charlotteville nú um helgina, til að mótmæla áformum borgaryfirvalda um að fjarlægja styttu af herforingjanum Robert Lee á torgi í borginni. Lee fór fyrir hersveitum Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu, þar sem sunnanmenn börðust meðal annars gegn afnámi þrælahalds.

Skipuleggjandi mótmælanna, Jason Kessler, segir að þau sýni að hvítu fólki sé nóg boðið. Hann hefur sakað borgaryfirvöld í Charlotteville um hatur í garð þeirra sem eru hvítir á hörund.

Borgarstjóri Charlotteville hefur aftur á móti sakað mótmælendurnar um kynþáttahyggju og hatur.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV