Netsambandið orðið betra í sveitum en þéttbýli

11.07.2017 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þar sem ljósleiðari hefur verið lagður í sveitum landsins er fjarskiptasamband víða orðið betra en í þéttbýli. Formaður Fjarskiptastjóðs segir að átakið „Ísland ljóstengt" eigi aðeins við í dreifbýli þar sem markaðsfyrirtæki muni ekki bæta úr tengingum.

Frá því landsátakið „Ísland ljóstengt" hófst vorið 2016 hafa mörg sveitarfélög látið leggja ljósleiðara í dreifbýli með styrk frá Fjarskiptasjóði. Átakinu er ætlað að bæta fjarskipti í dreifðum byggðum utan markaðssvæða og þar sem tengikostnaður er hár. Þéttbýlli svæði teljast þar ekki styrkhæf.

„Flóknara að stíga inn í þéttblylið“

Eftir því sem ljóðsleiðaravæddum sveitabæjum fjölgar, batnar netsambandið í sveitinni. Og þá er orðið lélegra samband í þorpum og minni þéttbýlisstöðum í sama sveitarfélagi. Haraldur Benediktsson, formaður Fjarskiptasjóðs, segist kannast við þetta.  „Það er flóknara að stíga inn í þéttblyliskjarna, eða þéttbýlli svæði, heldur en dreifbýlið. Við þurfum að gæta að því að markaðsfyrirtæki hafa þar ákveðnar skyldur og réttindi sem við þurfum að umgangast eftir settum reglum,“ segir hann.

Kostnaður við tengingar hafi líka áhrif

Og í sjálfu sér sé ekki hægt að gefa út algilt svar um að öll þéttbýli og allt dreifbýli falli undir hlutverk Fjarskiptasjóðs. En það sé að koma í ljós, eftir því sem verkinu vindur fram, að þarna geti orðið munur. Það sé ákveðið viðmið sem sjálft fjarskiptaregluverkið skilgreinir. “Og við erum líka að fást við að styðja eftir ákveðnum hlutfallskostnaði, eða meðal tengikostnaði. Eðlilega er ódýrara að leggja á þéttbýlli svæði og þess vegna hafa menn líka fallið út með stuðning fyrir svona þorp og bæi sem standa þétt,“ segir hann   

Óvíst að sveitarfélag sem leggi ljósleiðara í þorpið fái styrk

Og það  sé ekki víst að sveitarfélag sem taki ákvörðun um að leggja ljósleiðara í 100 manna þorp fái jafnan stuðning við það úr Fjarskiptasjóði og ef það væri að leggja í sveitina umhverfis. “Nei, við erum fyrst og fremst að starfa þar sem tengikostnaðurinn er hár og þar sem liggur fyrir að markaðsfyrirtæki muni ekki bæta úr tengingum,“ segir Haraldur.