Netflix þjófstartar íslenskri kvikmynd

07.07.2017 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd: Saga film/Mosaic Films  -  Youtube
Heimildarmyndin Out of Thin Air, sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálin, er komin í umferð á ólöglegum niðurhalssíðum. Mistök hjá streymisveitunni Netflix, sem er aðili að framleiðslunni, urðu til þess að myndin var sett í umferð í alþjóðlegu streymi stutta stund þann 3. júlí. Fulltrúi Saga Film segir fyrirtækið ekki hyggjast höfða skaðabótamál.

Íslenskum áhorfendum brá í brún þegar þeir gátu streymt myndinni af vefsíðunni Netflix, en áætlaður frumsýningardagur hérlendis er í Bíó Paradís þann 9. ágúst næstkomandi, og fer myndin í sýningu í kvikmyndahúsum fyrst um sinn.

Out of Thin Air stikla 2017 frá Mosaic Films á Vimeo.

„Ég var stödd í matarboði á sunnudag, eftirmiðdag, þar sem einn af samstarfsmönnum mínum úr verkefninu sagðist hafa séð hana á Netflix,“ segir Margrét Jónasdóttir, einn af framleiðendum myndarinnar. „Ég þrætti fyrir það, því að í raun átti hún ekki að fara í loftið fyrr en í lok september, en upphaflegur afhendingardagur til Netflix var fyrst í júlí.“ Hún segir að í framhaldinu hafi sér verið illa brugðið.

Handvömm innanhúss hjá Netflix

Frumsýningardegi myndarinnar var frestað, og liggja fyrir því ýmsar ástæður. Myndin tók lengri tíma í framleiðslu en upphaflega áætlað var, en að auki hefur myndin hlotið mikinn meðbyr á kvikmyndahátíðum um allan heim. Margrét telur að handvömm innanhúss hjá Netflix hafi orðið til þess að myndin fór í loftið mánuði fyrir frumsýningu hérlendis. Hún segir að umsvifalaust hafi verið sett í ferli að kippa myndinni úr sýningu og hafi það að mestu leyti gengið hratt fyrir sig. „Ég veit ekki hversu víða hún fór, en ég hef ekkert verið að eltast við það“. Hún segist þó vita að myndin hafi ekki farið í birtingu í Bretlandi, Frakklandi eða Danmörku, en þó er víst að hún birtist á Íslandi og í Bandaríkjunum. Ljóst er að um eitthvert fjárhagslegt tjón sé að ræða, en erfitt er að áætla hversu mikið það er. Margrét segir fyrirtækið ekki ætla í skaðabótamál.

Mynd með færslu
 Mynd: sagafilm
Margrét Jónasdóttir

Mikið mál að ná myndinni af Youtube

„Ég hefði viljað stjórna því líka að samstarfsfólkið okkar, leikarar og aðstandendur og þeir sem koma fram í myndinni hefðu séð hana fyrstir hér á landi, en ekki að menn séu að heyra þetta úti í bæ,“ segir Margrét. Kvikmyndin hefur þó verið sýnd á kvikmyndahátíðum á nokkrum stöðum og því er eingöngu um að ræða eiginlega frumsýningu innanlands. Hún bætir því við að réttindamál sem snúa að höfundarrétti á internetinu séu gríðarlega flókin. Hún segir að aðstandendur verkefnisins einbeiti sér nú að því takmarka skaðann, og hún hafi til að mynda eytt mikilli orku í að ná myndinni í heild sinni niður af Youtube, þar sem um 1500 manns höfðu þá þegar séð hana.

Góðar viðtökur eru ljósi punkturinn

Margrét er þó jákvæð og segir ljósu punktana vissulega vera hve góðar viðtökurnar hafa verið, óháð því hvernig áhorfendurnir hafa nálgast efnið. „Ég hvet alla til að koma og sjá hana í bíó, þetta er metnaðarfull mynd og við lögðum mjög mikið í hana.“ Myndin verður frumsýnd í Bíó Paradís 9. ágúst næstkomandi og verður aðgengileg í kvikmyndahúsum í einhvern tíma, en myndin fer síðan í sýningu á RÚV þann 4. september. Í framhaldi af þeirri sýningu verður myndin aðgengileg á íslenska Netflix.

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn