Netflix jafnan viðbót við annað sjónvarpsáhorf

08.01.2016 - 14:02
Reynslan sýnir að áhorf á sjónvarpsefni í gegnum Netflix bætist við áhorf á hefðbundnar sjónvarpsstöðvar. Fólk dregur ekki úr áhorfi á það sem fyrir var þrátt fyrir áskrift að Netflix eða öðrum sambærilegum efnisveitum. Þetta segir Valgeir Vilhjálmsson, markaðsrannsóknastjóri Ríkisútvarpsins.

Valgeir telur að áhrifin af komu Netflix hingað til lands verði ekki mikil fyrst um sinn. „Það er búið að vera mikil ásókn í þetta, hvort sem það er löglega eða ólöglega, 20-25 þúsund heimili með þetta. Áhorfið á þetta er kannski ekkert mikið í mínútum talið. Menn kíkja inn á þetta og horfa á kannski eina þáttaröð í einu, tíu klukkutíma í röð. Síðan horfa þeir kannski ekkert í nokkra daga eða vikur eða mánuði. Þannig það eru margir með áskrift en nota ekki það mikið. En svo eru auðvitað aðrir sem nota þetta dags daglega.“

Hann bendir á að áhorf fólks á efnisveitur bætist oftast við hefðbundið áhorf. „Rannsóknir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum benda til þess að þeir sem eru með Netflix og eru með aðgang að meira efni, þeir horfa yfirleitt bara miklu meira á sjónvarp heldur en þeir sem eru ekki með þetta. Þeir horfa kannski jafn mikið á þessar hefðbundnu stöðvar og hinir, en svo er þetta bara viðbót.“

Valger telur svonefnda línulega dagskrá (hefðbundna uppbyggingu sjónvarpsdagskrár) ekki á miklu undanhaldi - enn sem komið er - þrátt fyrir stóraukna möguleika fólks á að sækja sjónvarpsefni hvar og hvenær sem er. „Menn hafa svo sem verið að segja að línuleg dagskrá sé dauð en við erum með tölur um þetta. Áhorf á sjónvarp á Íslandi er mælt mjög nákvæmt og hefur verið frá 2008, hver mínúta, allan sólahringinn, allan ársins hring. Við sjáum hversu mikið er horft í línulegri dagskrá, í tímaflakki og í upptöku. Og jú, það er alveg þróun, en 85% af áhorfi til dæmis í desember var bara á línulegt sjónvarp.“ 

Rætt var við Valgeir í Samfélaginu í tilefni af komu Netflix til Íslands.

Mynd með færslu
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi