Netanyahu hætti við heimsókn til Obama

08.03.2016 - 05:53
epa05016261 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu attends the weekly cabinet meeting at his office in Jerusalem, Israel, 08 November 2015.  EPA/ABIR SULTAN / POOL
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.  Mynd: EPA  -  EPA POOL
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hafnaði heimboði Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, síðar í mánuðinum. Embættismenn Hvíta hússins eru hlessa yfir ákvörðun forsætisráðherrans.

AFP fréttastofan hefur eftir aðstoðarmanni forsetans að stjórnvöld í Ísrael hafi haft samband að fyrra bragði og viljað fund með forsetanum annað hvort 17. eða 18. mars. Hvíta húsið bauð forsætisráðherrann velkominn þann 18.

Ned Price, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna segir starfsfólk Hvíta hússins hafa hlakkað til að sjá um fundinn. Það hafi því komið verulega á óvart að frétta það í gegnum fjölmiðla að Netanyahu væru hættur við komuna. Sagt var að bandarísk stjórnvöld hafi ekki haft tök á að bjóða forsætisráðherranum á tilsettum tíma en Price segir það alrangt.

Samskipti ríkjanna hafa stirðnað í forsetatíð Obama. Ágreiningur er á milli þeirra um kjarnorkusamning við Íran sem Netanyahu er mjög mótfallinn. Þá hafa ríkin viljað ræða tíu ára varnaraðstoðaráætlun. Núverandi samningur tryggir Ísrael árlega rúmlega þrjá milljarði dala auk útgjalda til annarra verkefna, á borð við loftvarnarkerfi.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, heimsækir Ísrael í dag, en hann er nú á ferðalagi um Mið-Austurlönd. Biden ræðir meðal annars við Netanyahu í heimsókn sinni ásamt Reuven Rivlin, forseta Ísraels. Þaðan fer hann til Ramallah á Vesturbakkanum þar sem hann á fund með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV