Nepal: Flugvélar með 21 innanborðs saknað

24.02.2016 - 05:16
Erlent · Asía
epa05177765 A picture made available on 24 February 2016 shows a twin aircraft of the Tara Airlines landing at Jomsom Airport, in Jomsom, a popular resort town west of Kathmandu, Nepal, 04 April 2015, as Mount Nilgiri is visible on the background.
Twin Otter vél Tara Air á flugvellinum í Jomsom. Myndin er tekin 2015, en samskonar vél hvarf af radarnum á leið til Jomsom í morgun.  Mynd: EPA
Farþegaflugvél nepalska flugfélagsins Tara Air hvarf í fjalllendi Nepals snemma í morgun. 21 er um borð, 18 farþegar og þriggja manna áhöfn. Vélin, sem er af gerðinni Twin Otter, var á leið frá Pokhara, næststærstu borg Nepals, til bæjarins Jomsom, sem er vinsæll áfangastaður göngu- og fjallgöngufólks. Vélin hvarf af ratsjám og datt úr talsambandi við flugturn átta mínútum eftir flugtak og ekkert hefur til hennar sést eða heyrst síðan.

Aðeins 20 mínútna flug er á milli Pokhara og Jomsom, en Jomsom er um 1.000 metrum hærra uppi, um 2.700 metra yfir sjávarmáli. Björgunarþyrlur hafa verið sendar af stað til leitar. Flugslys hafa verið nokkuð tíð í Nepal undanfarin misseri og eru flest þeirra rakin til reynslulausra flugmanna, óstjórnar og lélegs viðhalds á vélunum. Nepölsk flugfélög hafa átt undir högg að sækja og sætt töluverðri gagnrýni alþjóðlegra flugmálayfirvalda. 2013 lagði Evrópusambandið blátt bann við flugi nepalskra véla til aðildarlanda sinna. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV