Neita að gefa upp afstöðu í spilakassamáli

12.09.2017 - 22:18
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Eigendur Íslandsspils neita að gefa upp afstöðu sína til aðferðafræði sem beitt var þegar viðhorfskönnun um nýja spilakassa var gerð. Spilafíkill sem fenginn var í rýnihóp vegna spilakassanna segist hafa fallið eftir að hann var fenginn í hópinn.

 

DV hefur fjallaði um  markaðsrannsókn sem Gallup gerði vegna nýrra spilakassa sem Íslandsspil ætla að kaupa frá kanadíska fyrirtækinu IGT. Seljandi spilakassanna fékk Gallup til að gera viðhorfskönnun til nýju kassanna hér á landi.

Rannsóknin fór þannig fram að Íslandsspil lét Gallup fá lista yfir spilastaði sem síðan fengu upplýsingar um að leitað yrði til þeirra að sjálfboðaliðum. Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun var talað við spilafíkil sem fengið hafði sálfræðimeðferð vegna fíknar sinnar og boðið var í rýnihópinn. Hann segist hafa fallið við það.

Leitað var viðbragða Gallup við aðferðinni í dag, en beiðni um viðtal var hafnað og vísað í yfirlýsingu sem Gallup sendi frá sér í gær. Þar segir meðal annars að svona rannsókn hafi verið gerð í mörgum löndum í þeim tilgangi að þróa vöru og notendaviðmót og tekið fram að engir spilavinningar hafi verið í boði.

Íslandsspil eru í eigu þriggja samtaka. Þau eru Rauði kross Íslands sem á 64%, SÁÁ sem á 9,5% og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem á 26,5%. Þegar fréttastofa ræddi við framkvæmdastjóra Rauða krossins var vísað á framkvæmdastjóra Íslandsspila með viðbrögð við aðfeðafræðinni og sagt að hann svaraði fyrir hönd eigenda. Framkvæmdastjóri Íslandsspila neitaði að koma í viðtal og sendi í framhaldinu frá sér yfirlýsingu þar sem tilurð rannsóknarinnar er lýst og sagt að samkvæmt upplysingum frá IGT hafi þátttakendur verið spurðir fyrirfram hvort peningaspil hafa valdið þeim skaða síðustu 12 mánuði. Þeir sem svöruðu játandi voru útilokaðir. Formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar vildi ekki tjá sig um málið og formaður SÁÁ svaraði ekki skilaboðum.

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV