Nálgunarbann í eineltismáli gegn barni stendur

12.09.2017 - 12:19
Mynd með færslu
Breiðdalsvík.  Mynd: -  -  breiddalsvik,is
Hæstiréttur staðfesti í gær nálgunarbann sem karlmanni á fimmtugsaldri hefur verið gert að sæta vegna áreitis og eineltis hans í garð þrettán ára drengs á Breiðdalsvík. Foreldrar drengsins segja manninn hafa lagt son þeirra í einelti í rúm tvö ár, síðan drengurinn var á ellefta aldursári.

Héraðsdómur Austurlands staðfesti með úrskurði á mánudaginn fyrir rúmri viku þá ákvörðun Lögreglustjórans á Austurlandi frá 24. ágúst að maðurinn skuli sæta nálgunarbanni. Lögreglustjórinn hafði sett hann í fjögurra mánaða nálgunarbann en héraðsdómur taldi að það ætti ekki að vara lengur en til 1. nóvember, enda lægi fyrir að maðurinn yrði þá fluttur úr landi.

Hæstiréttur staðfesti svo úrskurðinn í gær. Samkvæmt honum má maðurinn ekki koma á heimili drengsins eða í tíu metra fjarlægð frá því, auk þess sem bann er lagt við því að hann veiti drengnum eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Ellefu tilvik tilkynnt til lögreglu

Í úrskurði héraðsdóms eru rakin ellefu tilvik sem hafa verið tilkynnt til lögreglu og varða samskipti mannsins við drenginn. Á meðal þeirra er að maðurinn hafi varnað drengnum för, rekið hann út af opinberum stað og lagt hönd á hjól drengsins og haldið því þangað til drengurinn varð hræddur.

Þá hefur verið tilkynnt um að hann hafi ýtt drengnum þar sem þeir mættust á göngustíg, hrint honum í sundlaug, fellt hann í jörðina, veitt drengnum eftirför þegar hann var á göngu með hundinn sinn, hreytt í hann ónotum og elt hann á hjóli, hjólað í veg fyrir hann og hindrað þannig för hans. Lögreglustjórinn sagði í ákvörðun sinni að líðan drengsins væri óviðunandi og að hann treysti sér ekki til að mæta í skólann í haust.

Héraðsdómur tók undir með lögreglustjóra að rökstuddur grunur væri um að maðurinn hefði hegðað sér með þessum hætti í sjö af ellefu tilkynntum tilvikum.

Rót málsins er sú að maðurinn telur að drengurinn hafi unnið skemmdarverk á listaverki sem hann vann. Maðurinn hefur haldið því fram að drengurinn eigi við hegðunarvandamál að stríða, en niðurstaða dómstóla er sú að drengurinn eigi að njóta vafans umfram manninn, enda sé hann barn.

Uppfært kl. 15.08:
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt. Upphaflega var í henni vísað til þess að maðurinn hefði hrint drengnum í sundlaug, en það er hins vegar eitt fjögurra tilkynntra tilvika sem héraðsdómur segir ekki að sé rökstuddur grunur um, enda standi þar orð gegn orði.