Nákvæm tímasetning afnáms hafta óráðleg

11.03.2016 - 20:06
Mynd með færslu
Anne Osborn Krueger prófessor í alþjóðahagfræði við Johns Hopkins háskólann  Mynd: RÚV
Ekki er skynsamlegt að setja dagsetningu á afnám fjármagnshafta, segir bandarískur hagfræðiprófessor. Tölur sem hún hafi séð lofi góðu.

Anne Osborn Krueger alþjóðahagfræðingur var ráðgjafi stjórnvalda á síðasta ári við uppgjör slitabúanna. Næsta stóra verkefni stjórnvalda er aflandskrónuútboðið. „Það er annað vandamál sem þarf að leysa“, segir Anne. „Þær tölur sem ég hef séð lofa góðu og útlit fyrir að svör við því geti fundist næstu mánuði.“

Fyrst kvenna yfir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Anne er 82ja ára og hefur ef svo má segja brotið glerþök á ferlinum. Hún var fyrsta konan, sem gegndi embætti aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og var um tíma framkvæmdastjóri, eina konan á undan Christine Lagarde. Áður var Anne aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Margir þættir spila inn í 

Meira en sjö ár eru síðan fjármagnshöftin voru sett en ýmislegt þarf að klára áður en þeim verður aflétt og fyrsta skrefið á þeirri leið er aflandskrónuútboðið, segir Anne. „Þetta ræðst að miklu leyti af ytri aðstæðum, þróun efnahags í heiminum og viðbrögðum fólks, sem þýðir að ómögulegt er að nefna dagsetningu. Þetta verður að ráðast af þróun mál. Þróunin í dag lofar góðu og ef svo heldur fram sem horfir tekur þetta ekki langan tíma en þið vitið aldrei hvenær fiskurinn hverfur eða ferðamönnum fækkar. Þess vegna vill enginn lofa upp í ermina á sér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Stöðnun víða um heim

Efnahagsástand heimsins er óvenjulegt um þessar mundir, segir hún, því sums staðar í heiminum sé ástandið mjög gott en afar slæmt annars staðar. „Það er mikil stöðnun víða í heiminum. Spurningin er hvort vaxtaröflin í Bandaríkjunum séu nógu sterk til að draga önnur hagkerfi í heiminum með sér eða hvort evrópsk, asísk eða önnur neikvæð öfl séu nógu slæm til að toga Bandaríkin niður með sér. Það er spurningin sem allir spyrja sig, held ég.“

Anne er hér á landi í boði stjórnvalda en hún situr nú kvöldverðarboð forsætisráðherra ásamt Lee Buchheit og fleirum í tilefni því að uppgjöri slitabúa föllnu bankanna er lokið.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV