Nær Þór/KA áttunda sigurleiknum í röð?

16.06.2017 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV
Heil umferð verður í Pepsí-deild kvenna í fótbolta í kvöld en Þór/KA hefur farið stórkostlega af stað í deildinni og unnið fyrstu sjö leiki sína.

Norðankonur fá Grindavík í heimsókn á Akureyri í kvöld en ljóst er að fyrirfram er búist við sigri Þórs/KA. Grindavík hefur aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu en tapað fimm og bíður erfitt verkefni á Þórsvelli í kvöld. 

Stórleikur í Kópavogi

Stærsti leikur áttundu umferðar verður án efa á Kópavogsvelli í kvöld en þar mætast liðin sem hafa barist um Íslandsmeistaratitilinn síðustu ár, Breiðablik og Stjarnan. 

Fyrir leikinn í kvöld munar aðeins einu stigi á liðunum í 2. til 3. sæti deildarinnar en Stjarnan er í 2. sæti, fimm stigum á eftir Þór/KA. 

Landsliðsframherjinn Harpa Þorsteinsdóttir kom inn á sem varamaður í síðasta leik Stjörnunnar 29. maí en það var fyrsti leikur hennar í nokkra mánuði eftir að hafa eignast barn snemma árs. Hún er í kapphlaupi við tímann um að koma sér í gott leikform fyrir EM í Hollandi í næsta mánuði og verður áhugavert að sjá hversu mikinn þátt hún tekur í leiknum í kvöld. 

Leikirnir í áttundu umferð Pepsí-deildarinnar í kvöld: 

18:00 Þór/KA - Grindavík

18:00 Fylkir - ÍBV

19:15 Breiðablik - Stjarnan

19:15 Valur - FH

19:15 Haukar - KR

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður