Náðaði konu sem drap ofbeldisfullan eiginmann

31.01.2016 - 23:50
epa05137833 A picture dated 03 December 2015 shows Jacqueline Sauvage, a French woman convicted of murdering her abusive husband, sitting in court in Blois, France. Media reports on 31 January 2016 state that French President Francois pardoned Jacqueline
Jaqueline Sauvage  Mynd: EPA  -  REPUBLIQUE DU CENTRE via MAXPPP
Frakklandsforseti náðaði í dag konu á sjötugsaldri sem 2014 var dæmd í tíu ára fangelsi fyrir drápið á manni sínum. Eiginmaður Jaqueline Sauvage var ofbeldisfullur alkóhólisti sem að sögn Jaqueline hafði nauðgað henni og þremur dætrum hennar árum og áratugum saman og beitt þær miklu harðræði. Hann hefði einnig beitt son þeirra grófu ofbeldi, sem á endanum leiddi til þess að hann framdi sjálfsmorð þann 10. september, 2010. Daginn eftir skaut Jaqueline mann sinn þremur skotum í bakið með riffli.

Fyrir rétti bar Jaqueline að um sjálfsvörn hefði verið að ræða, en á það sættist dómari ekki. Í október 2014 var hún dæmd sek og henni gert að sæta 10 ára fangelsisvist. Dómnum var áfrýjað en án árangurs, og í desember síðastliðnum var fangelsisdómurinn staðfestur.

Yfir 400.000 manns skrifuðu undir áskorun til Francois Hollande, Frakklandsforseta, um að náða Jaqueline. Jafnframt var sett fram krafa um að hugtakið sjálfsvörn verði skilgreint með víðari hætti í lögum, svo fórnarlömb grófs og viðvarandi heimilisofbeldis geti nýtt sér það þegar við á.

Náðun forsetans breytir engu um sektardóminn, Jaqueline Sauvage telst ekki sýkn saka, en þarf ekki að sitja af sér það sem eftir lifir fangelsisdómsins. Reiknað er með að hún fái frelsi í apríl. Í tilkynningu frá forsetaskrifstofunni segir að í ljósi einstakra aðstæðna þeirra mæðgna hafi forsetinn viljað gera Jaqueline kleift að snúa aftur í faðm fjölskyldu sinnar við fyrsta tækifæri. Tilskipun forsetans var gefin út tveimur dögum eftir að þrjár fullorðnar dætur Jaqueline áttu fund með honum.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV