N-Kórea vildi friðarviðræður í ársbyrjun

22.02.2016 - 00:45
Mynd með færslu
Kim Jong-Un líður ráðherrum sínum enga vanvirðingu.  Mynd: EPA
Bandaríkin neituðu ósk Norður-Kóreu um friðarviðræður í byrjun árs því norður-kóresk stjórnvöld vildu ekki verði við beiðni um að minnka kjarnavopnabúr sitt. Þetta staðfestir utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í kvöld.

Wall Street Journal greindi frá því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi samþykkt að halda leynilegar friðarviðræður sem myndu formlega binda endi á Kóreustríðið sem var háð á sjötta áratugnum. Fundurinn átti að vera haldinn í byrjun árs, en skömmu eftir neitunina gerðu Norður-Kóreumenn tilraun með kjarnavopn, sem þeir segja hafa verið vetnissprengju. John Kirby, talsmaður utanríkisráðuneytisins, staðfesti þetta við blaðamenn í kvöld.

Hann segir stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa óskað eftir viðræðunum. Utanríkisráðuneytið hafi íhugað beiðnina vandlega og tekið skýrt fram að afvopnun kjarnavopna yrði stór hluti slíkra viðræðna. Stjórnvöld í Pyongyang tóku það ekki í mál og því urðu viðræðurnar ekki lengri.

Eftir kjarnorkutilraunina í janúar og tilraun með langdrægt flugskeyti fyrr í þessum mánuði hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt að beita Norður-Kóreu frekari refsiaðgerðum. Barack Obama skrifaði undir frekari refsiaðgerðir af hálfu Bandaríkjanna á fimmtudag. Þeim er ætlað að skera á fjármagnsflæði til landsins í gegnum peningaþvætti og fíkniefnasmygl, sem Kim Jong-un og hans helstu bandamenn græði milljónir Bandaríkjadala á.