N-Kórea hótar fyrirbyggjandi kjarnorkuárás

04.03.2016 - 00:50
epa05089344 An undated photo published by the North Korean Central News Agency (KCNA) supplied by Yonhap News Agency (YNA) on 06 January 2016 shows North Korea's top leader Kim Jong-un sign an order for the country to conduct a hydrogen bomb test.
Kim Jong-un undirritar samþykki sitt við tilraunina.  Mynd: EPA  -  KCNA via YONHAP
Kjarnavopnabúr Norður-Kóreu hefur verið sett í viðbragðsstöðu að beiðni Kim Jong-Uns, leiðtoga landsins. Kim vill að kjarnavopnum verði beitt í fyrirbyggjandi árás vegna hertra refsiaðgerða af hendi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Haft er eftir Kim á ríkisfréttastöð Norður-Kóreu í kvöld að kjarnavopn verði að vera klár til afnota hvenær sem er. Ástandið á Kóreuskaga sé orðið það hættulegt að norðrið verði að beita fyrirbyggjandi árásum.

Alvanalegt er að raddir af þessu tagi heyrist úr norðri þegar spenna eykst á milli Kóreuríkjanna. Vitað er að Norður-Kórea á einhverja smáa kjarnaodda en sérfræðingar eru ekki á sama máli um hvort þeir geti komið oddunum á flugskeyti.

Geta ekki staðið undir hótunum

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur þegar gefið út yfirlýsingu um að Norður-Kórea hafi enga burði til þess að beita kjarnavopnum með svo skömmum fyrirvara. Eftirlitsmenn þeirra hafi ekki séð þarlend stjórnvöld gera tilraun til þess að koma kjarnaoddum á langdræga eldflaug. Talsmaður ráðuneytisins hafði þó allan varann á og bætti því við að Bandaríkin væru tilbúin til gagnárásar ef nauðsyn krefur.

Eina leiðin til varnar er uppbygging kjarnavopnabúrs

Að sögn norður-kóreska ríkissjónvarpsins lét Kim þessi orð falla þegar tilraun var gerð með nýjan eldflaugaskotpall sem getur skotið mörgum flugskeytum í einu síðustu nótt. Þá voru aðeins nokkrar klukkustundir liðnar frá því Öryggisráðið samþykkti hertar refsiaðgerðir. Hann sagði skotpallinn verða færðan í víglínu ásamt öðrum nýlegum vopnabúnaði. Haft er eftir honum að á þessum öfgafullu tímum þar sem Bandaríkjamenn fari fram með stríðsrekstur og eyðileggingu gegn öðrum þjóðum, þá sé eina leiðin til þess að verja fullveldi Norður-Kóreu að byggja upp kjarnavopnabúr sitt.

Eiga að uppfylla samninga

Hátt settur bandarískur embættismaður hvetur Norður-Kóreu hins vegar til þess að róa sig og fara ekki fram með offorsi. Frekar ættu þarlend stjórnvöld að einbeita sér að því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og samninga.

Refsiaðgerðirnar sem Sameinuðu þjóðirnar samþykktu í gær eru þær hörðustu sem Norður-Kórea hefur verið beitt. Ráðist er gegn útflutningi Norður-Kóreu á ýmsum jarðefnum, sem er helsta tekjulind hagkerfis þeirra. Þá er þeim gert erfiðara að nýta sér alþjóðlegt flutningskerfi.