Myndum breytt þannig að fólk sýnist nakið

20.02.2016 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og Ákærendafélag Íslands fagna frumvarpi Bjartar Ólafsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, um hefndarklám. Lögreglustjórinn segir að nokkuð sé um að myndum sé breytt þannig að þær sýni einstakling nakinn eða á kynferðislegan hátt og vill banna það. Dómarafélag Íslands telur að hefndarklám sé þegar refsinæmt samkvæmt hegningarlögum og að brot gegn því ákvæði geti varðað fangelsi allt að fjórum árum.

Í frumvarpinu, sem lagt var fram á Alþingi á síðasta ári, er lagt til að „ hver sem birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum og birting eða dreifing er til þess fallin að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir þolandann, skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“ Með öðrum orðum að sérstakt ákvæði verði um hefndarklám í hegningarlögum.

Í umsögn Ákærendafélags Íslands við frumvarpið kemur fram að erfitt hafi reynst að heimfæra birtingu nektarmynda í óþökk viðkomandi til refsiákvæða. Félagið telur að í frumvarpinu séu lagðar fram þarfar breytingar á almennum hegningarlögum í því skyni að banna svokallað hefndarklám - að deila kynferðislegum myndum af manni gegn vilja hans sé brot gegn friðhelgi og kynferðisbrot.

Ákærendafélagið telur þó rétt að geta þess að hefndarklám sé mögulega ekki réttnefni - vissulega sé slíku myndefni stundum dreift í hefndarskyni en það eigi ekki alltaf við.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, fagnar framkomnu frumvarpi í umsögn sinni. Hún telur rétt að refsiramminn verði fjögur ár en ekki tvö eins og kveðið sé á um í frumvarpinu. 

Lögreglustjórinn telur einnig rétt að bæta við ákvæði um að bannað verði að útbúa eða breyta mynd með þeim hætti að hún sýni einhvern nakinn eða á kynferðislegan hátt. Lögreglustjórinn segir að nokkuð sé um að notuð séu tölvuforrit sem geti breytt manneskju á mynd með því að láta líta út fyrir að hún sé nakin. „Slík háttsemi kann ekki síður að brjóta gegn öðrum aðila og valda honum skaða.“ 

Dómarafélag Íslands telur hins vegar að þessi breyting á hegningarlögum sé nánast ónauðsynleg því ákvæðið sé þegar til staðar. Þá bendir Dómarafélagið á að með frumvarpinu sé verið að leggja til lækkun refsimarka fyrir þessi brot „sem varla hefur verið ætlunin,“ segir í umsögninni.

Dómarafélagið telur rétt að staldra við,  hugsanlega sé betra að taka ákvæðið um blygðunarsemisbrot til endurskoðunar. Félagið tekur undir með ríkissaksóknara og refsiréttarnefnd sem fannst rétt að fram færi ítarlegri athugun á viðfangsefninu í nágrannalöndum Íslands áður en lengra væri haldið.

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV