Myndskeið sýnir óvænta hlið á Jim Carrey

Erlent
 · 
Mannlíf
 · 
Menningarefni
epa03889333 US-Canadian actor Jim Carrey is seen on the sidelines before the Atlanta Falcons host the New England Patriots in their NFL American football game at the Georgia Dome in Atlanta, Georgia, USA, 29 September 2013. Carrey in Atlanta filming &quot
 Mynd: EPA  -  RÚV

Myndskeið sýnir óvænta hlið á Jim Carrey

Erlent
 · 
Mannlíf
 · 
Menningarefni
08.08.2017 - 10:48.Freyr Gígja Gunnarsson
Sex mínutna langt myndskeið sem sýnir kanadíska gamanleikarann Jim Carrey í nýju ljósi hefur farið eins og eldur í sinu um netið eftir að bandaríski körfuboltamaðurinn Lebron James deildi því á Twitter-síðu sinni. Í myndskeiðinu ræðir Carrey um ástríðu sína fyrir myndlist og áhorfendur fá að sjá brot af verkum hans.

Frá þessu er sagt á vef Hollywood Reporter.  Jim Carrey hefur verið einn vinsælasti gamanleikari heims um árabil en færri vissu eflaust að hann þykir nokkuð liðtækur listmálari.  

Carrey ræddi um þessa ástríðu í stuttmynd eftir David Bushell sem dreift var á myndbandasíðunni Vimeo fyrir hálfum mánuði. Hann segist hafa orðið hugfanginn þegar hann byrjaði að mála „Ég kann svo vel við sjálfstæðið og frelsið. Það er enginn sem segir þér hvað þú mátt og hvað þú mátt ekki gera,“ segir Carrey í myndinni.

Myndskeiðið vakti strax nokkra athygli en fór síðan á flug um netheima þegar körfuboltamaðurinn LeBron James deildi því á Twitter-síðu sinni með skilaboðum til Carrey. „Þetta er ótrúlegt. Ég hafði enga hugmynd um þetta. Ótrúleg verk, Jim Carrey. Myndi gjarnan vilja berja þau augum. Elska list,“ skrifaði James.

Carrey svaraði Lebron og þakkaði honum fyrir hlý orð. „Það væri mér sannur heiður að hitta þig.“

Carrey hefur látið lítið fyrir sér fara frá því að Cathriona White, fyrrverandi kærasta hans, svipti sig lífi á heimili sínu í Los Angeles fyrir tveimur árum. Fjölskylda White hefur viljað sækja Carrey til saka fyrir dauðsfall hennar þar sem hann hafi útvegað henni töflurnar sem hún notaði til að fyrirfara sér.