Myndskeið: Api gerir usla í geimstöðinni

24.02.2016 - 12:00
Bandaríski geimfarinn Scott Kelly hefur dvalið í Alþjóðlegu geimstöðinni ISS frá því í mars í fyrra. Dvöl hans fer senn að ljúka, þar sem ákveðið er að hann fái far með rússnesku geimfari til jarðar í vor.

Ekki seinna vænna, hugsa félagar hans í geimstöðinni væntanlega, enda er Scott Kelly farinn að hegða sér full apalega upp á síðkastið. Á Twittersíðu hans nýlega kom fram að ekki veitti af að létta lundina eilítið eftir tæpt ár úti í geimnum. Á myndskeiði sem NASA sendi fjölmiðlum nýlega má sjá Kelly elta starfsfélaga sinn, Bretann Tim Peake, um geimstöðina, klæddan górillubúningi.

Scott Kelly átti afmæli á sunnudaginn var. Það var bróðir hans Mark sem sendi honum búninginn í afmælisgjöf. Scott og Mark eru eineggja tvíburar og þannig vill til að Mark er einnig geimfari. Þeir eru einu bræðurnir sem hafa verið sendir út í geiminn til þessa.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV