Myndband: Janus sleppur, Júlíus í bann

25.02.2016 - 12:02
Aganefnd HSÍ hefur dæmt Gróttumanninn Júlíus Þóri Stefánsson í eins leiks bann vegna rauðs spjalds. Júlíus Þórir missir af undanúrslitum Coca-Cola bikarsins fyrir vikið. Janus Daði Smárason, Haukamaður, sleppur hins vegar við leikbann.

Janus Daði fékk rautt spjald á 35. mínútu leiks Hauka og ÍBV á laugardaginn var fyrir að skjóta í andlit Stephen Nielsen, markvarðar ÍBV, úr vítakasti. Slíkum brotum fylgir alla jafna ekki leikbann og því getur Janus Daði tekið þátt í undanúrslitaleik Hauka gegn Val í Coca-Cola bikarnum á föstudag.

Júlíus Þórir verður hins vegar fjarri góðu gamni þegar Grótta mætir Stjörnunni í hinum undanúrslitaleiknum. Júlíus Þórir stöðvaði sókn Aftureldingar undir lok leiks liðanna á fimmtudaginn var. Honum var refsað með rauðu spjaldi og í gær dæmdi aganefnd hann í eins leiks bann. Það er almenna reglan þegar leikmenn brjóta viljandi af sér á lokamínútum leiks til að stöðva sóknir andstæðinganna.

Bæði atvikin má sjá í spilaranum hér að ofan.

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður