Mourinho leggur inn umsókn hjá Manchester Utd

24.01.2016 - 00:48
epa05062395 Chelsea manager Jose Mourinho acknowledges the fans during the UEFA Champions League group G soccer match between Chelsea and Porto, at Stamford Bridge in London, Britain, 09 December 2015.  EPA/ANDY RAIN
Jose Mourinho.  Mynd: EPA
Jose Mourinho er búinn að senda atvinnuumsókn til Manchester United. Þetta fullyrðir breska dagblaðið Independent í sunnudagsblaði sínu. Mourinho var rekinn frá Chelsea í desember eftir arfaslaka titilvörn fyrri hluta tímabilsins. Umboðsmaður hans segir fréttina ekki eiga við rök að styðjast.

Mikil pressa er á núverandi knattspyrnustjóra Manchester United, Louis van Gaal, en árangur liðsins hefur aldrei verið verri í ensku úrvalsdeildinni en í dag. Stuðningsmenn félagsins bauluðu í leikslok eftir tap á heimavelli gegn Southampton.

Að sögn Independent greip Jorge Mendes, umboðsmaður Mourinhos, tækifærið eftir leikinn í dag og afhenti forráðamönnum Manchester United sex blaðsíðna umsókn hans um starf van Gaals. Á þessum sex blaðsíðum segist Mourinho þrá starfið og sé tilbúinn til þess að aðlagast starfsumhverfi félagsins. Einnig útlistar hann aðgerðaáætlun til þess að rétta gengi liðsins af.

Mendes sendi frá sér tilkynningu í nótt þar sem hann segir fréttina algjöran þvætting. Hann segir fáránlegt að hugsa til þess að Mourinho skrifi bréf og sendi til félaga til þess að sækja um vinnu.

Mourinho var orðaður við Manchester United þegar Alex Ferguson lét af störfum hjá félaginu árið 2013. David Moyes var ráðinn en Mourinho fór þess í stað til Chelsea í annað sinn á stjóraferlinum. Hann gerði Chelsea að meisturum á síðustu leiktíð en eftir slakt gengi var honum sagt upp störfum í desember.