Mótmæltu árásum í Köln

06.01.2016 - 01:19
epa05088841 Women protest against sexism outside the cathedral in Cologne, Germany, 05 January 2016. After assaults on women outside Cologne main station at New Year, little is currently known about the perpetrators.  EPA/OLIVER BERG
Mótmælendur í Köln í kvöld.  Mynd: EPA  -  DPA
Hundruð kvenna flykktust á götur Kölnar í Þýskalandi til þess að mótmæla árásum gegn tugum kvenna við aðaljárnbrautastöð borgarinnar á gamlárskvöld. Þær kröfðust þess að Angela Merkel, kanslari, gripi tafarlaust til aðgerða.

Hópur karlmanna beitti tugi kvenna kynferðisofbeldi og rændi þær á gamlárskvöld í Köln. Að minnsta kosti 90 mál hafa komið á borð lögreglunnar, þar af ein tilkynnt nauðgun. Einnig var veist að konum í Hamborg og Stuttgart en í mun minna mæli að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC.

Á þriðja hundrað kvenna komu saman nærri vettvangi glæpanna í Köln í kvöld til þess að mótmæla glæpunum. Margar héldu á mótmælaspjöldum og var krafist þess af Angelu Merkel að grípa til aðgerða. Merkel hefur þegar fordæmt árásirnar og sagði þær ógeðslegar. Allt verði gert til þess að finna þá seku.

Enginn grunaður

Lögreglustjóri Kölnar segir enga hafa verið handtekna og enga liggja undir grun. Það eina sem þeir hafi í höndunum sé að lögreglumönnum á vettvangi hafi sýnst þetta vera ungir karlmenn frá Mið-Austurlöndum eða Norður-Afríku.

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, varar við því að árásirnar verði notaðar til þess að kynda undir málstað þeirra sem eru á móti flóttamönnum. Hann segir mikilvægt að muna að allir séu jafnir fyrir lögunum, þá skipti engu máli hvaðan þeir koma, ehldur hvað þeir gerðu og að hægt sé að sanna það.

Lögreglan gagnrýnd

Merkel ræddi við lögreglustjóra Kölnar í dag og eftir þann fund sagði Merkel að mikilvægast væri að hafa hendur í hári árásarmannanna og að þeir verði dæmdir. Hún sagði það algjörlega óviðeigandi að bendla hópinn við flóttamenn.

Innanríkisráðherrann Thomas de Maziere beinir reiði sinni að lögreglunni í Köln sem hann segir hafa brugðist algjörlega. Lögreglan rýmdi torgið þar sem árásirnar voru gerðar þ vegna hættu á meiðslum af völdum flugelda en áttuðu sig ekki á því hvað var að gerast þegar árásirnar hófust. De Maziere segir það óásættanlegt að árásirnar hafi geta verið gerðar á þessum tíma. Hann krefur lögregluna svara um hvernig þetta gat allt saman átt sér stað.