Mótmæli vegna erindis Stranger og Þórdísar

15.03.2017 - 09:37
Mynd með færslu
 Mynd: TED
Hópur fólks stóð fyrir mótmælum við Southbank Centre í Lunúndum vegna fyrirlesturs Tom Stranger og Þórdísar Elva Þorvaldsdóttur í gær. Fyrirlesturinn er byggður á bókinni Handan fyrirgefningarinnar og átti upphaflega að vera hluti af ráðstefnunni Women of the World en vegna andstöðu og undirskriftasöfnunar á netinu var hann tekinn af dagskrá. Þórdís segir undirskriftasöfnunina hafa verið byggða á misskilningi.

BBC fjallar um mótmælin á vef sínum en Þórdís og Stranger vöktu heimsathygli fyrir fyrirlestur sinn á TEDX. Þar ræddu þau um átta ára sáttaferli en Stranger nauðgaði Þórdísi þegar hann var skiptinemi hér á landi.

Á vef BBC kemur fram mótmælendurnir hafi meðal annars reynt að koma í veg fyrir að fólk kæmist inn í fyrirlestrarsalinn til Þórdísar og Stranger. Þeir hafi hrópað: „Það er nauðgari í byggingunni,“ og „Út með nauðgarann“. Blaðamaður BBC segir að það sé heldur óvenjuleg sjón að sjá mótmælendur við ráðstefnuhöll sem sé frægari fyrir heimsklassa tónleika. 

Breska ríkisútvarpið ræddi við hina 75 ára gömlu Diönu Langford sem var ein þeirra sem mótmælti erindi Þórdísar og Stranger. „Mér finnst eins og þarna sé nauðgari að hagnast á glæp sínum.“

Óhætt er að segja að erindi og bók Þórdísar og Stranger hafi vakið mikla athygli og spurningar í Bretlandi. Til að mynda hvort það sé siðferðislega rétt að Stranger geti grætt á glæp sínum.  BBC bendir í því sambandi á grein listamannsins Liv Wynter. Hún segir í samtali við breska ríkisútvarpið að þótt Stranger muni ekki fá neitt greitt fyrri erindið í Lundúnum þá muni hann fá eitthvað út úr því - til að mynda með fjölmiðlaumfjöllun. Og hún óttast að þetta leiði jafnvel til þess að nauðgarar telji í lagi að setja sig í samband við fórnarlömb sín.

Katie Russell, talsmaður Rape Crisis, segir í samtali við BBC að ef það sé minnsti möguleiki á því að nauðgara finnist að hann geti sett sig í samband við fórnarlamb sitt sé það áhyggjuefni.  „Ef einhver er að lesa þetta og íhugar að gera það - ekki. Það er hvorki þinn réttur né þín ákvörðun,“ segir Russell. 0

BBC ræddi einnig við þá sem sóttu fyrirlesturinn. Þeir virtust flestir ánægðir með það sem Stranger hafði fram að færa. „Þetta var hennar saga - hann reyndi ekki að stela sviðsljósinu eða láta þetta snúast um hann.“ Annar gestur spurði að ef aldrei heyrðist frá karlmönnum hvernig ættu hlutirnir að breytast.

Hópur fólks stóð fyrir mótmælum við Southbank Centre í Lunúndum vegna fyrirlesturs Tom Stranger og Þórdísar Elva Þorvaldsdóttur í gær. Fyrirlesturinn er byggður á bókinni Handan fyrirgefningarinnar og átti upphaflega að vera hluti af ráðstefnunni Women of the World en vegna andstöðu og undirskriftasöfnunar á netinu var hann tekinn af dagskrá. Þórdís segir undirskriftasöfnunina hafa verið byggða á misskilningi.