Mótmæla laxeldi í opnum sjókvíum

19.06.2017 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Sjókvíar í Berufirði  -  Fiskeldi Austfjarða
Aðalfundur landssambands veiðifélaga mótmælir harðlega eldi á norskum ógeltum laxi í opnum sjókvíum hér við land. Landssambandið fagnar því að ákveðið hafi verið að framkvæma áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland.

Í ályktun aðalfundarins er bent á að tugþúsundir eldisfiska hafi sloppið síðasta árið og gengið upp í ár. Telur sambandið aðeins tímaspursmál þar til erfðamengun mælist í íslenskum laxastofnum. 

Líkt og fjallað var um í fréttum nýlega þá eiga norsk fyrirtæki og fjárfestar rúmlega helming fjögurra stærstu laxeldisfyrirtækja landsins.

„Reynsla Norðmanna af laxeldi í sjókvíum hefur leitt í ljós endalausa baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun við villta laxastofna og lúsafaraldur sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika. Sömu aðstæður hafa komið upp við Íslandsstrendur þar sem slátra hefur þurft hundruðum þúsunda fiska,“ segir í ályktuninni.  

Þá gagnrýnir fundurinn að norskum laxeldisfyrirtækjum hafi verið afhent strandsvæði endurgjaldslaust, ólíkt því sem gerist í Noregi þar sem fyrirtæki þurfi að greiða háar fjárupphæðir fyrir útgefin starfsleyfi. Hins vegar lýsir sambandið yfir ánægju með að framkvæma eigi áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland, enda sé Ísland fyrsta landið til að framkvæma slíkt mat og önnur lönd hafi ákveðið að fylgja í kjölfarið.