Mótmæla í ísbjarnarbúningum við Hörpu

12.10.2013 - 13:59
Hópur liðsmanna frá náttúruverndarsamtökunum Greenpeace stóðu fyrir mótmælum fyrir utan Hafnarhúsið í gærkvöld þegar ráðstefnan Artic Circle var sett. Liðsmennirnir voru í ísbjarnarbúningum og vildu mótmæla framferði Rússa í máli nokkurra náttúruverndarsinna sem hafa verið ákærðir fyrir sjórán.

Greint er frá mótmælunum fyrir utan Hafnarhúsið á vef Alaska Dispatch og þar birtar myndir af liðsmönnum Greenpeace í ísbjarnarbúningum. Alice Rogoff, einn af forsvarsmönnum ráðstefnunnar, er einnig einn eigandi vefmiðilsins.

Liðsmenn Greenpeace voru síðan aftur á ferðinni fyrir utan Hörpu í dag þar sem ráðstefnan fer fram. Þeir vilja vekja athygli á stöðu nokkurra mótmælenda, sem voru handteknir í aðgerðum rússneskra stjórnvalda í Murmansk.  Þeim hefur verið neitað um lausn gegn tryggingu.

Á vef Alaska Dispatch er einnig greint frá því að Kumi Naidoo, framkvæmdastjóri Greenpeace, sé væntanlegur til Íslands til að vera viðstaddur ráðstefnuna. Naidoo hyggst boða til blaðamannafundar í Reykjavík vegna málsins og sumir vefmiðlar halda því fram að Naidoo ætli að óska eftir því að ráðstefnan sendi frá sér ályktun um málið þar sem rússnesk stjórnvöld verði gagnrýnd.