Mótmæla í ísbjarnarbúningum við Hörpu

12.10.2013 - 13:59
Mynd með færslu
Hópur liðsmanna frá náttúruverndarsamtökunum Greenpeace stóðu fyrir mótmælum fyrir utan Hafnarhúsið í gærkvöld þegar ráðstefnan Artic Circle var sett. Liðsmennirnir voru í ísbjarnarbúningum og vildu mótmæla framferði Rússa í máli nokkurra náttúruverndarsinna sem hafa verið ákærðir fyrir sjórán.

Greint er frá mótmælunum fyrir utan Hafnarhúsið á vef Alaska Dispatch og þar birtar myndir af liðsmönnum Greenpeace í ísbjarnarbúningum. Alice Rogoff, einn af forsvarsmönnum ráðstefnunnar, er einnig einn eigandi vefmiðilsins.

Liðsmenn Greenpeace voru síðan aftur á ferðinni fyrir utan Hörpu í dag þar sem ráðstefnan fer fram. Þeir vilja vekja athygli á stöðu nokkurra mótmælenda, sem voru handteknir í aðgerðum rússneskra stjórnvalda í Murmansk.  Þeim hefur verið neitað um lausn gegn tryggingu.

Á vef Alaska Dispatch er einnig greint frá því að Kumi Naidoo, framkvæmdastjóri Greenpeace, sé væntanlegur til Íslands til að vera viðstaddur ráðstefnuna. Naidoo hyggst boða til blaðamannafundar í Reykjavík vegna málsins og sumir vefmiðlar halda því fram að Naidoo ætli að óska eftir því að ráðstefnan sendi frá sér ályktun um málið þar sem rússnesk stjórnvöld verði gagnrýnd.


Deila frétt12.10.2013 - 13:59