Mótmæla brottvísun við innanríkisráðuneytið

18.02.2016 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason  -  RÚV
Um þrjátíu manna hópur fólks mótmælir fyrir utan innanríkisráðuneytið. No Borders Iceland og Ekki fleiri brottvísanir boðuðu til mótmælanna til að mótmæla brottvísunum fjögurra manna. Í tilkynningu frá samtökunum segir að þótt búið sé að fresta brottvísun þriggja þeirra sé ekki víst að þeir fái að dvelja hér.

Mótmælendur skora á ráðherra að „hætta að fela sig á bak við andlitslausa skriffinna Útlendingastofnunar“.  Samkvæmt ákvæðum útlendingaráðherra geti ráðherra sett frekari reglur um útgáfu dvalarleyfis fyrir flóttamenn en þær sem tilteknar eru í lögum.  

Einnig er mótmælt hvernig mönnunum var tilkynnt um brottvísun. Lögregla hafi hringt í þá í stað þess að hafa fyrst samband við lögfræðing. Þá hafi þeim aðeins verið veittur einn virkur dagur til að ganga frá sínum málum. Lengri tíma þurfi til eftir þriggja til fjögurra ára búsetu hér á landi. 

Mótmælendur krefjast þess að tilkynningum um brottvísanir verði hér eftir gefnar með sanngjörnum fyrirvara, að ávallt verði haft samband við lögfræðing viðkomandi og honum gefið færi á að kæra ákvörðunina. Þá er þess krafist að notkun Dyflinnarreglugerðarinnar verði hætt og úrskurðir byggðir á henni felldir úr gildi.