Mossesian efstur á Reykjavíkurskákmótinu

13.03.2016 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Skáksamband Íslands
Armeninn Sergei Movsesian er efstur á Reykjavíkurskákmótinu að lokinni sjöttu umferð GAMMA Reykjavíkurskákmótsins sem fram fór í dag. Armeninn viðkunnanlegi, sem er aðeins sjöundi í styrkleika röð keppenda, hefur 5½ vinning. Átta skákmenn hafa 5 vinninga og þar á meðal indverska skákdrottningin Tania Sachdev sem vinnur hvern stórmeistarann á fætur öðrum.

Stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson, Stefán Kristjánsson og Henrik Danielsen og alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinsson eru efstir Íslendinganna með 4½ vinning.

Umferð dagsins í dag var afar spennandi. Bragi gerði jafntefli við ítalska stórmeistarann Sabino Brunello í afar spennandi skák sem þar sem tugir annarra keppenda og áhorfenda fylgdust með lokamínútunum.

Einar Valdimarsson, sem gerði jafntefl við sænska stórmeistarann Nils Grandelius í fyrstu umferð, heldur áfram að gera frábæra hluti og gerði í dag jafntefli við norska alþjóðlega meistarann Kristian Stuvik Holm.

Sjöunda umferð fer fram í dag og hefst kl. 15. Movsesian teflir við búlgarska stórmeistarann Ivan Cheparinov. Íslensku stórmeistararnir Henrik Danielsen og Stefán Kristjánsson fá mjög ögrandi verkefni. Henrik mætir ungverska ofurstórmeistaranum Richard Rapport en Stefán mætir armenska stórmeistaranum Hran Melkumyan.  Hjörvar, sem vann Björn Þorfinnsson í dag, mætir Braga bróður Björns.