Mossack og Fonseca ekki sleppt úr haldi

11.02.2017 - 20:49
Mynd með færslu
Kenia Porcell, ríkissaksóknari Panama  Mynd: EPA
Dómari í Panama hafnaði kröfum verjanda Jürgen Mossack og Ramón Fonseca um lausn gegn tryggingargjaldi. Mossack og Fonseca eru ,eins og nafnið gefur til kynna, eigendur lögmannsstofunnar Mossack Fonseca en þeir voru handteknir á föstudag í Panamaborg. Handtökurnar tengjast rannsókn ríkissaksóknara Panama á bílaþvottahneykslinu svokallaða, umfangsmiklu peningaþvættis- og mútumáli í Brasilíu, sem verið hefur til rannsóknar frá 2014 og teygir anga sína til margra landa Mið- og Suður-Ameríku.

Elias Solano, verjandi Mossack, vísaði öllum ásökunum á hendur skjólstæðingi sínum á bug, málið væri veikt og byggt á sandi.

Marlene Guerra, verjandi Fonseca, sagði að skjólstæðingi sínum hefði verið neitað um lausn gegn tryggingafé þar sem dómari taldi hættu á að Fonseca myndi reyna að komast úr landi.

Guerra staðfesti jafnframt að húsleit hefði verið gerð í húsum þeirra beggja og höfuðstöðvum lögmannsstofunnar.  Hugsanlegt er að þriðji maðurinn - Edison Teano - sé einnig í haldi lögreglunnar, að sögn breska blaðsins Guardian.

Lögmannsstofan Mossack Fonseca komst í kastljós fjölmiðla í apríl á síðasta ári eftir fjölmiðlar víða um heima hófu að birta fréttir sem unnar voru uppúr Panamaskjölunum svokölluðu.  Þær leiddu meðal annars til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV