Mörður ekki vanhæfur til setu í stjórn RÚV

22.01.2016 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Skjáskot
Mörður Árnason er ekki vanhæfur til að sitja í stjórn RÚV. Þetta er niðurstaða forseta Alþingis á grunni athugunar lagaskrifstofu Alþingis. Ábending barst um hæfi Marðar frá framkvæmdarstjóra fjölmiðlanefndar í desember vegna reglna um að kjörnir fulltrúar væri ekki kjörgengir í stjórn RÚV.

Samkvæmt bréfi forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, til Guðlaugs G. Sverrissonar starfandi formanns stjórnar RÚV teljast varaþingmenn ekki kjörnir þingmenn í merkingu stjórnarskrár, laga um kosninga til Alþingis né þingskapa.

Mörður vekur athygli á málinu á bloggsíðu sinni. Hann segir þetta sömu rök og hann hafi haldið fram. „...að frambjóðandi sé ekki kjörinn nema hann sé kjörinn – eða gegni i forföllum störfum kjörins fulltrúa.“

Sem þýðir þó að Mörður var óhæfur til að sinna störfum í stjórn þá viku sem hann sat á þingi. Þá kemur fram í bréfi forseta Alþingis að það sé ekki í verkahring Alþingis, samkvæmt lögum og hlutverki þess, að meta hæfi stjórnarmanna líkt og stjórn RÚV hafi farið fram á.

„Þetta sýnist mér lokapunkturinn á þessu máli. Menn geta auðvitað haldið áfram fyrir dómstólum vilji menn það. Sem er eini vettvangurinn til þess að túlka lög með þessum hætti,“ segir Mörður í samtali við fréttastofu.

En hvað með þá viku sem Mörður sat á þingi og var vanhæfur? „Það er ekkert að gera í því. Ég hef beðist afsökunar á því. Ég bara hreinlega fattaði þetta ekki. En þetta kennir okkur það að þarf að skilja vandlega á milli. Að menn í minni stöðu, og reyndar fimm eða sex aðrir sem sitja í stjórn, taka sæti sem varamenn að þeir víki úr stjórn.“

Í bloggfærslu leiðir Mörður að því líkur að pólitískar ástæður búi að baki því að hæfi hans hafi verið dregið í efa til að byrja með. Hann skilji ekki hvers vegna þetta mál hófst á sama tíma Ríkisútvarpið, fjárhagur þess, ráðherrann, tilteknir þingmenn og stjórn Ríkisútvarpsins voru áberandi í fréttum.

„Ég hef engin verkfæri eða nennu til að rannsaka það. En mér sýnist það. Það er mín tilfinning.“

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV