Morðinginn áður dæmdur fyrir morðtilræði

21.04.2017 - 03:02
epa05918476 French Police officers react after a shooting in which one police officer was killed along with their attacker and another two police officers wounded in a terror attack near the Champs Elysees in Paris, France, 20 April 2017. Three police
 Mynd: EPA
Formleg kennsl hafa verið borin á árásarmanninn sem myrti einn lögreglumann og særði tvo til viðbótar í París í gærkvöldi áður enn hann var sjálfur felldur af lögreglu. Hann var handtekinn í febrúar síðastliðnum, grunaður um að leggja á ráðin um lögreglumorð, en var látinn laus vegna skorts á sönnunargögnum. Ódæðismaðurinn hefur áður freistað þess að bana lögreglumönnum og hlotið dóm fyrir.

Lögregla hefur ekki viljað greina frá nafni hans, með vísan til rannsóknarhagsmuna, en tíðindamenn AFP-fréttastofunnar hafa eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem tengjast rannsókn málsins að ódæðismaðurinn sé 39 ára gamall Frakki. 

Hann er sagður hafa verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir 12 árum, í febrúar 2005, fyrir þrefalda morðtilraun árið 2001. Tveir þeirra sem hann skaut á í það skiptið voru einnig lögreglumenn. Viðkomandi hefur verið undir eftirliti hryðjuverkadeildar lögreglu að undanförnu, þar sem grunur lék á að hann hygðist freista þess að endurtaka leikinn þótt ekki tækist að sanna það á hann er hann var handtekinn í febrúar. 

Atburðarásin á Champs-Élysées í gærkvöld er farin að skýrast nokkuð. Um klukkan 21.00 að staðartíma virðist illvirkinn hafa komið akandi og stöðvað bíl sinn við hlið liðsflutningabíls lögreglunnar, sem er með mikinn viðbúnað á fjölmennustu stöðum Parísarborgar um þessar mundir. Árásarmaðurinn steig út úr bíl sínum, vopnaður hríðskotariffli, og hóf skothríð á liðsflutningabílinn. Síðan hljóp hann í áttina að lögreglumönnum á eftirlitsgöngu og skaut og særði tvo þeirra áður en hann var sjálfur skotinn til bana af lögreglu. François Hollande, Frakklandsforseti, segir einn óbreyttan vegfaranda líka hafa orðið fyrir skoti. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV