Möguleikar GPS-tækja ekki fullnýttir

06.01.2016 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ferðamenn lenda stundum í vandræðum á vegum landsins vegna þess að engar upplýsingar um ástand vega og færð fást í GPS-tækjum eða farsímum sem þeir nota til að rata. Engar sendistöðvar eru til að veita upplýsingum áfram í tækin. Hjá Vegagerðinni er unnið að úrbótum.

Ísland skrefi á eftir

Á Íslandi hefur ekki tekist að innleiða upplýsingagjöf í GPS-tæki og farsíma líkt og í öðrum Evrópuríkjum. Þetta segir Nicolai Jónasson deildarstjóri hjá Vegagerðinni. Vegagerðin tekur saman upplýsingar um færð og ástand vega en ekki hefur verið hægt að veita upplýsingunum jafnóðum í farsíma og GPS-tæki, hvort sem það er í gegnum FM-senda eða vef. Í ár fékk Vegagerðin fjármagn til að kortleggja tæknilegt umhverfi og möguleika á úrbótum. Ekki liggur ljóst fyrir hvernig sú vinna þróast eða hvenær hún geti borið árangur.

Dræmt netsamband gæti haft áhrif

Ríkharður Sigmundsson starfar hjá Garmin búðinni í Reykjavík sem selur GPS-tæki. Hann segir að það kerfi sem fólk þekkir erlendis frá sé byggt á upplýsingum sem fara um FM-senda, sem í upphafi hafi verið fyrir umferðarútvörp. Hann segir að einnig sé verið að skoða að hanna búnað sem veitir upplýsingar Vegagerðarinnar í síma sem gætu verið tengd GPS í gegnum Bluetooth. Það væri þó kerfi sem einungis væri hægt að nýta á nýjustu GPS tækjunum. Nicolai hjá Vegagerðinni segir að umferðarupplýsingaveitur færist óðum til netsins og að þótt sannarlega myndi hvers konar kerfi sem þetta verða bót fyrir það sem er núna þá er netsamband víða stopult sem gæti hindrað að upplýsingar komist til skila.

Ferðamenn koma sér í vandræði

Sigurður Viðarsson, starfsmaður Landsbjargar, segir að með bættri upplýsingagjöf fyrir þessi tæki gæti útköllum fækkað: „Tækin segja ekki hvort vegir eru lokaðir eða ekki. Ef þú ætlar frá Þingeyri á Patreksfjörð þá segir tækið þér líklega að fara Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, en eins og við, sem búum hérna, þá vitum við að þessir fjallvegir eru meira og minna lokaðir yfir veturna." Fjölmörg dæmi eru um að ferðamenn komi sér í klandur með því að fylgja GPS-tækjum og farsímum í blindni. Sigurður leggur áherslu á að fólk afli sér upplýsinga, en einnig megi merkingar við þjóðvegi vera betri. Hann sér enga ástæðu til að hætta að nota ferðakort: „Gott vegakort, það er gott að hafa það við hendina þegar menn eru að ferðast. Tæknin er góð, en hitt virkar og hefur alltaf virkað. Það er æskilegast að fólk sé búið að kynna sér hvert það er að fara, vera búið að gera smá áætlun og vita hvort það eru að keyra 100 eða 1000 kílómetra."

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV