Mjög dregið úr refsingum barna á Íslandi

07.09.2016 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Hermannsdóttir  -  RÚV
Unnið er að stofnun nýs unglingaheimilis á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ungmenni geta meðal annars afplánað dóma. Markmiðið er að færa meðferðina nær heimaumhverfi flestra barnanna. Tæplega 500 börn voru kærð fyrir brot á hegningarlögum á síðasta ári. 

Boðið verður upp á langtímavistun að erlendri fyrirmynd í ætt við meðferðarheimili ríkisins á landsbyggðinni. Mjög hefur dregið úr vistun barna á stofnunum undanfarin ár, og að sögn Halldórs Haukssonar, sviðsstjóra meðferðar- og fóstursviðs hjá Barnaverndarstofu, setja flestir foreldrar fyrir sig fjarlægðina frá fjölskyldunni. Með því að hafa heimilið í nærumhverfi barnanna er hægt að vinna jafnóðum að aðlögun barnsins að daglegu lífi. Heimilið hefur verið samþykkt af velferðarráðuneytinu, sem hefur falið Barnaverndarstofu að undirbúa stofnun þess.  Verið er að leita að hentugu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu til leigu, annars verður ráðist í byggingu nýs húsnæðis. Halldór segir stefnt að því að það hafi heimilislegt yfirbragð, þó öryggismál verði sett á oddinn. 

Enginn óskilorðsbundinn dómur frá 2013

491 barn var kært fyrir afbrot á síðasta ári. Strákar eru þar í meirihluta. Fréttablaðið greindi frá. Þriðjungur barnanna er undir fjórtán ára og því ósakhæfur.

Mjög hefur dregið úr refsingum barna undanfarin ár, samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun. Árið 2009 hlutu 64 börn á aldrinum 15 til 17 ára skilorðsbundin dóm, en ellefu í fyrra. Samkvæmt reglugerð um afplánun barna frá því í maí í fyrra gilda sömu reglur um vistun þeirra og annarra barna á meðferðarheimilum. Afar fátítt er að börn hljóti óskilorðsbundna dóma fyrir afbrot. Enginn slíkur dómur hefur fallið frá árinu 2013, en þá fengu þrjú börn fangelsisdóm.