„Mitt aðalstarf er að vera móðir"

18.02.2016 - 22:00
Söngkonan Erykah Badu sló umsvifalaust í gegn þegar hún gaf út sína fyrstu breiðskífu árið 1997. Blanda hip-hops, jazz- og sálartónlistar heppnast fullkomlega á hljómplötunni Baduizm sem verður í brennidepli næsta Albúmsþáttar.

Þegar Erykah Badu skaust fram á sjónarsvið með Baduizm vakti fágaður söngur hennar strax verulega athygli og röd hennar var líkt við Diönu Ross, Söruh Vaughan, Ellu Fitzgerald og ekki sízt Billie Holliday. Lögin voru grípandi og uppfull af tilfinningu og textarnir hreyfðu við fólki. Á tónleikum birtist hún áhorfendum síðan sem dularfull kona í búningum sem tengdust í senn Afríku og Nýöld; einstakar hárgreiðslur og höfuðföt, hringir, hálsfestar og armbönd. Kerti á sviði og Badu minnti helst á drottningu.

Erykah Badu er mikill aktívisti og hefur mikið látið til sín taka í heimaborg sinni og m.a. sett upp eigin góðgerðarsamtök sem kallast Beautiful Love Incorporated Non Profit Development. Hafa samtökin einna helst stutt við alls kyns menningu og m.a. var Black Forest leikhúsið í Suður Dallas gert upp og opnað að nýju að hennar undirlagi.  Black Forest getur tekið inn sýningar og tónleika og þar hafa fjöldamargir góðgerðartónleikar verið haldnir og meðal þeirra sem hafa komið þar fram eru Prince, Snoop Dogg og Questlove úr The Roots. 

Erykah fór til Afríku í febrúar 2003 og vann með fátækum börnum sem voru smituð af eyðniveirunni (AIDS). Fyrir framlag sitt til mannúðarmála hafa henni hlotnast ýmsar viðurkenningar. Badu er merkispersónua og margt sem hún hefur sagt í hinum ýmsum viðtölum hefur vakið athygli. Til dæmis þegar hún sagði að hennar aðalstarf væri að vera móðir. Og upp úr því sprytti síðan frábær sköpun.  Aðspurð hvort hún væri femínisti svaraði hún því til að hún væri mannréttindasinni.  

Fjallað verður um þennan gæðagrip í Albúminu á Rás 2, föstudaginn 19. febrúar kl.19.20 eða strax að loknum kvöldfréttum.

 

Mynd með færslu
Kristján Freyr Halldórsson
Albúmið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi