Mistókst að hafa ekki formann, segir Helgi

24.02.2016 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Þingmaður Pírata segir að sú aðferð að hafa ekki formann hafi mistekist og Píratar þurfi að horfast í augu við það. Það þýði þó ekki endilega að þeir taki upp formannsembætti. Hann segir að undirliggjandi gremja sé hluti af vaxtarverkjum og hana verði að ræða.

Píratar fengu þrjá þingmenn í alþingiskosningum 2013 og samkvæmt nýjustu Gallup könnun, tæpum þremur árum eftir kosningar fengju þau 25 þingmenn. Vaxtarverkirnir eru miklir og á Pírataspjallinu braust út síðustu daga hörð umræða sem endurspeglaði undirliggjandi gremju um það hvernig farið sé með vald. Þar voru vangaveltur um beitingu valds og innra skipulag Pírata, hver sé talsmaður, formaður, kafteinn eða hvað sem er og um það ræddu þau Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir sín á milli í dag.

En af hverju vilja Píratar ekki formann? „Við erum almennt bara á móti yfirvaldi og hugmyndin með því að vera ekki með formann var sú að við myndum valdefla grasrótina á kostnað valds að ofan það er hugmyndin vegna þess að við viljum ekki miðstýringu við viljum dreifstýringu og eins og ég sagði í gær þá er mín reynsla sú nú að þessi aðferð ein og sér að hafa ekki formann hefur að mínu mati mistekist við þurfum að horfast í augu við það við þurfum að gera eitthvað í því það þýðir ekki endilega að við eigum að taka upp formann mér finnst mikilvægt að við ræðum það.“ 

Hann segist telja að það sé fullur vilji til þess að ræða þessi mál, það verði óþægilegt en það verði bara að hafa það. Píratar af öllum flokkum verði að vera með á hreinu hvernig flokkurinn fer með vald. 

En eru þetta vaxtaverkir þið hafið vaxið mjög hratt? „Já þetta eru tvímælalaust hluti af vaxtaverkjum vegna þess að núna erum við að prófa svona svolítið nýja nálgun á flokksstarf sem að auðvitað nýjum meðlimum getur fundist skrýtið og framandi eðlilega og við svona ofboðslega hraða stækkun þá auðvitað reynir á allt svona og þá koma fram ný vandamál sem voru ekki til staðar þegar við vorum fámenn.“ 

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV