Misskildi skipanir og handtók of snemma

13.01.2016 - 19:01
Mynd með færslu
Sérsveit ríkislögreglustjóra að störfum. Myndin er úr safni.  Mynd: RÚV
Lögreglumaður í sérsveit ríkislögreglustjóra misskildi upplýsingar sem fóru um fjarskipti og framkvæmdi, ásamt öðrum, fyrirhugaða handtöku á íslenskum manni fyrr en áætlað var þegar tálbeituaðgerð fíkniefnadeildar lögreglu fór út um þúfur við Hótel Frón Þetta segir Guðmundur Ómar Þráinsson, yfirmaður sérsveitar ríkislögreglustjóra, í svari við fyrirspurn fréttastofu.

Ítrekað hefur verið fjallað um tálbeituaðgerðina í fjölmiðlum, meðal annars í tengslum við mál lögreglufulltrúa sem nú er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Hann er ekki sá sami og var úrskurðaður í gæsluvarðhald skömmu fyrir áramót.

Guðmundur Ómar segir að aðkoma sérsveitarinnar hafi verið skoðuð en á fundi með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi komið fram að þessi framkvæmd á handtökunni hefði ekki haft úrslitaáhrif á framgang málsins. Hann upplýsir að lögreglumenn í sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglumaður frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi handtekið íslenska manninn.

Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, staðfestir í samtali við fréttastofu að þetta hafi verið með þessum hætti. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Fram hefur komið að stjórnendur aðgerðarinnar við Hótel Frón hafi verið Friðrik Smári Björgvinsson og Aldís Hilmarsdóttir. Ítrekað hefur verið staðhæft í fjölmiðlum að lögreglufulltrúinn hafi stýrt þeim.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi íslenska mannsins, lagði í gær fram kröfu til Hæstaréttar um að málflutningi í málinu yrði frestað vegna rannsóknar héraðssaksóknara á lögreglufulltrúanum. Hann segir að svar yfirmanns sérsveitar breyti litlu um þá kröfu.

Hæstiréttur hefur óskað eftir frekari rökstuðningi um kröfu verjandanna. Vilhjálmur hefur enn fremur óskað eftir frekari gögnum frá ríkissaksóknara um aðgerð lögreglu - hann fékk í dag greinargerð frá embættinu en hefur synjað um frekari gögn. „Í greinargerðinni skoraði ég á ákæruvaldið að leggja fram öll gögn um aðgerðina við Frón, ákæruvaldið hefur hafnað því og byggir það á lagagrein sem ég tel að eigi alls ekki við.“

Vilhjálmur segir að þetta þýði að gögnin séu til en af einhverjum ástæðum vilji ákæruvaldið ekki láta þau af hendi. „Hvað hefur ákæruvaldið að fela? Hvað er það í þessari aðgerð sem þolir ekki dagsljósið?“