Mislingafaraldur á Ítalíu

19.03.2017 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: CDC/Dr. Heinz F. Eichenwald  -  Wikimedia Commons
Mislingafaraldur hefur skotið upp kollinum á meginlandi Evrópu á síðustu vikum. Mislingatilfellum á Ítalíu hefur fjölgað um 230 prósent og í Rúmeníu hafa 17 börn látist vegna mislinga. Sóttvarnarlæknir segir að Íslendingar þurfi að taka sig á í bólusetningum.

Mislingatilfellum á Ítalíu hefur fjölgað hratt á síðustu þremur mánuðum. Frá ársbyrjun eru skráð tilfelli mislinga þar í landi 700 en voru á sama tíma í fyrra um 200. Flestir hinna smituðu er ungt fólk á aldrinum 15 til 39 ára. Hlutfall bólusettra á Ítalíu hefur dalað frá 95 prósentum niður í 85 prósent og alveg niður í 60 prósent þar sem verst er. Þumalputtareglan er að séu 95 prósent þjóðar bólusett gegn sjúkdómi, sé samfélagið ónæmt.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að hér á landi séu nokkuð margir bólusettir gegn mislingum. „Það er milli 90 og 95 prósent sem er bólusettur, auðvitað þyrfti að ná þátttökunni yfir 95 prósent, en við erum á svipuðu róli og aðrir þannig að þetta er allþokkalegt, en við mættum gera betur.“

Beatrice Lorenzin, heilbrigðisráðherra Ítalíu, segir að meginverkefni stjórnvalda sé að ráðleggja foreldrum og gera þeim ljóst að bólusetning sé börnum þeirra ekki hættuleg heldur bjargi beinlínis lífi þeirra.

Þórólfur segir að á síðustu 20 árum hafi einungis komið upp tvö tilfelli mislinga hér á landi, það megi þakka því hversu útbreidd bólusetning sé, mislingar séu alvarlegur sjúkdómur sem gott sé að vera laus við úr samfélaginu. „Jú, þetta getur verið mjög alvarlegur sjúkdómur, það eru náttúrlega flestir sem fá mislinga sem sleppa nokkuð vel, en það er hluti sem fer illa út úr sýkingunni; annað hvort deyr eða fær mjög alvarlegar afleiðingar.“

Í Rúmeníu hafa til að mynda 17 börn látist af völdum mislinga síðan í fyrrahaust, en Rúmenía er það land í Evrópu þar sem flestir smitast af mislingum.

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV